Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kartöflurækt og rangfeðrun í leikhúsi

Mynd: RÚV / RÚV

Kartöflurækt og rangfeðrun í leikhúsi

25.10.2019 - 09:12

Höfundar

Kartaflan er í brennidepli í nýju leikverki sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu í gær. Verkið ber heitið Kartöflur og er vígsluverk nýs salar leikhússins og jafnframt sýningaraðar sem ber heitið Umbúðalaust.

Sviðslistahópurinn CGFC stendur að baki verkinu og Halldór Eldjárn semur og flytur tónlist þess. „Við fórum í smá rannsóknarferðalag þar sem við tókum viðtal við mikið af fólki sem veit mikið um kartöflur og er áhugasamt um kartöflur. Það er kannski rauði þráðurinn í þessu verki,“ segir Hallveig Kristín Eiríksdóttir sem skipar hópinn ásamt Ýr Jóhannsdóttur, Halldóri Eldjárn, Birni Jóni Sigurðssyni og Arnari Geir Gústafssyni. 

Alls eru sýningar á verkinu þrjár; 24., 25. og 26 október.

Eldmóður ungra höfunda

Salurinn Umbúðalaust er staðsettur á 3. hæð Borgarleikhússins og var nýlega innréttaður til sýninga. Ahersla er lögð á grasrót og ungum sviðshöfundum gert kleift að vinna tilraunaverkefni innan fagleikhúss.

Að sögn Kristínar Eysteinsdóttur leikhússstjóra þróa þrír hópar verk í salnum þetta leikár. „Þetta eru verk í vinnslu og þau munu þróast áfram á sýningartímanum. Í rauninni fá leikhóparnir algjörlega frjálsar hendur. Þau í  vinna með fundna hluti sem eru til í húsinu og vinna þetta í raun bara á hugvitinu og af þeim eldmóð sem einkennir unga sviðhöfunda.“

Þjóðarréttur Íslendinga

Að sögn Birnis Jóns, eins flytjenda og höfunda Kartaflna hefur grænmetistegundin  gegnum tíðina valdið ólgu og breytingum í íslensku þjóðfélagi. „Þegar kartaflan kemur til landsins á 18. öld verða ákveðin skil í samfélaginu þar sem fólk í uppsveitum byrjar að hata kartöfluna meðan fólk með sjó byrjar að elska hana. Þá verður til ýsan og kartöflurnar, þjóðarréttur Íslendinga.“

Meðal þess sem fjallað er um í verkinu er rangfeðrun kartöfluræktarkonunnar  Helgu Gísladóttur frá Unnarsholtskoti í Hrunamannahreppi og gerðar ítrekaðar tilraunir til að leiðrétta þá villu í opinberum gögnum.

Aðspurð segir Hallveig Kristín það síst ógnvekjandi að hleypa áhorfendum að verki í vinnslu. „Það er svolítið frelsandi að vita að fólk kemur inn í salinn vitandi að við erum bara búin að vera að vinna þetta í 3 vikur hérna í þessu rými. Við lítum á það sem frelsi til að gera svolítið ókláraðar tilraunir sem við vitum ekki niðurstöðurnar á fyrr en við sýnum það, “ segir hún. „Þetta verður spennandi kartöflustappa,“ bætir Birnir Jón við. 

Nánari upplýsingar um Kartöflur og Umbúðalaust má finna hér.