Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Karlmennska, birnir og sjálfsíhugun á RIFF

Mynd með færslu
 Mynd:  - RIFF

Karlmennska, birnir og sjálfsíhugun á RIFF

02.10.2017 - 10:19

Höfundar

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík hófst fyrir helgi. Hér má lesa stutta umfjöllun um þrjár af þeim myndum sem sýndar eru á hátíðinni.

Vetrarbræður

Vetrarbræður var opnunarmynd hátíðarinnar. Þetta er leikin mynd sem segir frá bræðrum sem búa í einangraðri verkamannabyggð. Yngri bróðirinn lendir í deilum við vinnufélagana og stigmagnandi útskúfun hans í framhaldinu reynir á samstöðu bræðranna.

Myndin minnir á ógurlegt öskrandi málverk, áferðarþung og vinnur markvisst með innilokunarkennd og einmanaleika. Karlmennskufyrirbærið sem eitrað afl er síðan einskonar þungamiðja í verkinu.

Vetrarbræður er ekki í neinum skilningi hefðbundin poppkornsmynd, en er ágætis inngangur í art-house kvikmyndir fyrir byrjendur. Hún er mjög óhefðbundin, en mátulega krefjandi og passlega löng. Mikilfenglegir og vel unnir rammar eru helsti styrkur myndarinnar. Frábær leikur aðalleikarans Elliott Crosset Hove færa verkið nær áhorfandanum, þó að alltaf sé haldið ákveðinni fjarlægð, jafnvel of mikilli á köflum. Ástarsagan sem sögð er til hliðar er hálfbökuð, og eina kvenpersóna verksins er tvívítt kynferðislegt viðfang. Þetta er þannig sterkari saga um samfélag, frekar en stakar persónur.

Grizzly Man

Margverðlaunuð kvikmynd leikstjórans Werner Herzog um líf „bjarnarhvíslarans“ Timothy Treadwells, sem var flækja af eldheitum umhverfis-aktívisma, hugmyndafræðilegu hálfsannleika og hreinum lygum. Þegar hann dó skyndilega í október árið 2003 fór sannleikurinn að koma í ljós.

Myndin er sérlega aðgengileg og fínn byrjunarpunktur fyrir þá sem ekki þekkja leikstjórann Herzog, sem er einmitt einn heiðursgesta RIFF þetta árið. Hún leikur sér með sannleikshugtakið og matreiðir sannfærandi ádeilu á nýaldarhugsunarhátt og hjátrú.

Helsti styrkur Grizzly Man er hin ákaflega kröftuga en sanngjarna mynd sem dregin er upp af aðalpersónunni og hvernig hann hlaut þau örlög sem um ræðir. Herzog er í senn mannlegur og gagnrýninn en þrátt fyrir það er myndin sneisafull af húmor og ógleymanlegum grátbroslegum augnablikum.

A Force in Nature: Jóhann Eyfells

Náttúrafl er sjálfsíhugun 93 ára íslensks listamanns sem flutti frá Flórída til Texas þegar konan hans dó. Jóhann Eyfells lýsir þeim öflum sem mótuðu ungdómsár hans á Íslandi, og síðar hvernig lífið varð í Bandaríkjunum.

Myndin hefur einkennandi áhugamannablæ sem er ekki löstur, heldur gefur verkinu sjarmerandi yfirbragð. Þó er leikstjórnin dálítið ómarkviss og sagan sömuleiðis, hún er rakin fram og til baka og í verkinu tosast á þrjú öfl, sagan sem listamaðurinn sjálfur vill segja, sagan sem aðstandendur hans vilja segja, og gera ítrekað í mynd, og svo hin óumflýjanlega undiralda sannleikans.

Náttúruafl er sérstök af því leytinu að hún er framleidd af aðstandendum listamannsins í samstarfi við bandaríska kvikmyndaframleiðendur, en yfirlýst markmið verksins er að kynna manninn og listina fyrir íslenskum listunnendum. Vissulega tekst myndinni það ætlunarverk, en það sem er í raun áhugaverðara er sér-íslenskur frásagnarstíll aðstandenda og hugsunarháttur listamannsins, sem mótar verkið, og skyggir á það pláss sem gagnrýni kvikmyndagerðarmannsins hefði annars tekið í sambærilegum framleiðslum.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Herzog er hermaður kvikmyndalistarinnar

Kvikmyndir

Barnamenning, Herzog og Norðurslóðir á RIFF

Kvikmyndir

„Þetta er ein frábær mynd á eftir annarri“