Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Karlar verði að taka virkan þátt

15.01.2015 - 19:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Rakarastofuráðstefna um jafnréttismál á vegum Íslands og Surinam hélt áfram í höfuðstöðvum Sameinuðu Þjóðanna í New York í dag. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra vonar að ráðstefnan sé aðeins byrjun á frekara starfi til að virkja karla í jafnréttisumræðunni.

„Við vonumst líka að þetta framtak verði til að styðja við framtak UN Women He for She, síðan vonumst við líka til að menn taki þessa hugmynd að baki ráðstefnunni og fari með hana í fyrirtæki, bæjarfélög eða haldi svona ráðstefnur í sínum heimalöndum, þeir sem hafa áhuga á því,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í New York í dag. Hér má fylgjast með ráðstefnunni. 

Rakarastofuráðstefnan á að virkja karla í umræðunni um jafnrétti. Utanríkisráðherra sagði í ávarpi í dag að heilbrigð samskipti kynjanna væru grundvöllurinn að heilbrigðu samfélagi. 

Kjarninn að baki þessu er að fá karlmenn til að taka virkan þátt í jafnréttisumræðunni og fá karlmenn til þess að leggja þessu verkefni lið því að við teljum að við munum seint ná fullum árangri ef að karlmennirnir taki ekki virkari þátt heldur en hafi verið.

Ráðstefnan á líka að styðja við starf Sameinuðu þjóðanna í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Ein kona af hverjum þremur í heiminum hefur orðið fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi. „Karlmenn líta í eigin barm á þessari ráðstefnu. Þeir velta fyrir sér hvað þeir geti gert til að binda enda á ofbeldi gegn konum.“

Utanríkisráðherra segir það liggja fyrir að í langflestum tilvika séu það karlar sem beita konur ofbeldi. „Og við að sjálfsögðu viljum vekja athygli á því að við vinnum held ég seint gegn ofbeldi gegn konum án þess að karlmenn opni hug sinn og hjarta fyrir umræðunni.“