Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Karl Wernersson verður gjaldþrota á mánudag

14.04.2018 - 08:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bú athafnamannsins Karls Wernerssonar verður tekið til gjaldþrotaskipta á mánudag. Morgunblaðið greinir frá þessu og hefur eftir Karli sjálfum. Í blaðinu segir Karl að málið hafi hangið yfir honum í áratug og snúist aðallega um „tæknileg formsatriði.“

Fréttastofa sagði frá því í september að skiptastjóri eignarhaldsfélagsins Milestone, sem Karl var aðaleigandi að, hefði lagt fram gjaldþrotabeiðni á hendur Karli í Héraðsdómi Reykjavíkur í júlí í fyrra. Karl skuldar þrotabúi Milestone marga milljarða í kjölfar dómsmáls sem höfðað var eftir að hann, Steingrímur bróðir hans og Guðmundur Ólason, sem var forstjóri Milestone, hlutu fangelsisdóma fyrir risavaxin umboðssvik í rekstri félagsins. Fyrir tæpu ári stóð skuldin í um tíu milljörðum króna.

Fréttastofa hefur greint frá því að Karl hafi, degi eftir að hann var dæmdur í fangelsi í fyrravor, skilað inn breyttum ársreikningi félagsins Lyfja og heilsu þar sem hann var ekki lengur tilgreindur eigandi félagsins, heldur sonur hans. Óljóst var hvenær sú eigendabreyting átti að hafa orðið eða hversu mikið sonurinn greiddi fyrir félagið. Sérfræðingar sögðu eignatilfærsluna ekki ólöglega en að almennt ættu þrotabú möguleika á að rifta slíkum ráðstöfunum.

Karl hefur staðið í málaferlum vegna skuldabréfs í eigu Steingríms bróður hans sem hann telur sig eiga rétt á að fá í hendur vegna þess að Steingrímur hafi rofið samkomulag þeirra á milli um að hann talaði aldrei um Karl við nokkurn mann. Hann stefndi lögmanni Steingríms vegna málsins og eftir að Steingrímur var úrskurðaður gjaldþrota hefur Karl höfðað mál á hendur skiptastjóra þrotabúsins til að fá skuldabréfið afhent. Á spýtunni hangir fyrsti veðréttur að landi Galtalækjarskógar, sem gerir skuldabréfið að verðmætustu eigninni í þrotabúi Steingríms. Félagið Váttur, í eigu Wernerssystkina, keypti Galtalækjarskóg árið 2007 á 225 milljónir króna.

Morgunblaðið segir að yfirvofandi gjaldþrot Karls sé vegna tveggja krafna á hendur honum: fyrrnefndrar kröfu frá þrotabúi Milestone annars vegar og kröfu frá tollstjóra hins vegar sem varðar skatta af arðgreiðslum árin 2006 og 2008.