Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kári fær 23 milljónir vegna vangoldinna launa

21.06.2018 - 16:27
Mynd úr sjónvarpsfréttum frá 2007.
 Mynd: RÚV
Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra þar sem lífeyrissjóðnum Stapa er gert að greiða Kára Arnóri Kárasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra sjóðsins, rúmar 23 milljónir vegna vangoldinna launa. Kári sagði starfi sínu lausu vegna fyrirhugaðrar umfjöllunar fréttaskýringaþáttarins Kastljóss um Panamaskjölin.

Kári sagðist hafa óskað eftir starfslokum hjá Stapa með hagsmuni sjóðsins í huga án þess að afsala sér neinum réttindum sem hann hefði notið samkvæmt ráðningarsamningi. 

Stapi taldi aftur á móti að Kári hefði að fyrra bragði og án fyrirvara óskað eftir að ljúka störfum hjá sjóðnum og að hann hefði brotið gegn trúnaðarskyldu sinni með því að upplýsa ekki um tilvist tveggja erlendra félaga sem hann tengdist. Þau tengsl hefðu réttlætt fyrirvaralausa brottvikningu hans úr starfi.

Bæði Hæstiréttur og héraðsdómur komast að þeirri niðurstöðu að yfirlýsing Kára yrði ekki skilin þannig að hann hefði talið sér skylt að láta af störfum án samningsbundins uppsagnarfrests. Þá hefði heldur ekki verið sýnt fram á að Kári hefði brotið svo af sér í starfi að „varðað gæti fyrirvaralausum brottrekstri og riftun ráðningarsamnings.“ 

Kári sagði starfi sínu lausu í apríl fyrir tveimur árum í tengslum við umfjöllun Kastljóss um Panamaskjölin.

Í yfirlýsingu sagði Kári að þótt eflaust mætti deila um hversu alvarlegt tilfelli hans væri þá mæti hann umræðuna sem nú væri í samfélaginu um aflandsfélög og skattaskjól þannig, að ekki væri boðlegt að maður í hans stöðu, sem sæi um vörslu á lífeyrissparnaði fyrir almenning, hefði tengst slíkum félögum. Engu máli skipti þótt langt væri um liðið, hvort þetta hafi verið löglegt eða ólöglegt eða hvort hann hefði hagnast á slíkum viðskiptum eða ekki.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV