Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Karen nýr framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar

10.09.2018 - 15:45
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Karen Kjartansdóttir hefur verið ráðin í stöðu framkvæmdastjóra hjá Samfylkingunni. Alls sóttu 25 um starfið. Karen hefur starfað sem upplýsingafulltrúi hjá United Silicon og sem samskiptastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Síðast starfaði hún hjá ráðgjafafyrirtækinu ATON þar sem hún hefur starfað við skipulagða upplýsingamiðlun og almannatengsl.

Í tilkynningu frá Samfylkingunni kemur fram að Karen hafi mikla reynslu af störfum við verkefna- og viðburðastjórnun, fjölmiðlum og kynningarmál. Karen er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og BA gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Þá hefur Karen unnið fjölda trúnaðarstarfa fyrir félagasamtök og félög í atvinnulífinu.

Kristján Guy Burgess var framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar en hann lét af störfum árið 2016. Síðan þá hefur ekki starfað sérstakur framkvæmdastjóri hjá flokknum fyrr en nú.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV