Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kardináli áfrýjar dómi fyrir barnaníð

05.06.2019 - 02:15
epa07626168 Cardinal George Pell arrives at the Supreme Court of Victoria in Melbourne, Australia, 05 June 2019. Pell is appealing his conviction for sexually abusing two boys in the 1990s.  EPA-EFE/JULIAN SMITH  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Ástralski kardinálinn George Pell, náinn samstarfsmaður Frans páfa, var viðstaddur í dag þegar áfrýjun vegna dóms sem hann hlaut fyrir barnaníð var tekin fyrir. Pell var klæddur í svört jakkaföt og með prestakraga er hann mætti fyrir dóm í dag en hann er fyrrverandi féhirðir Páfagarðs.

Hinn 77 ára Pell er sá hásettasti innan kaþólsku kirkjunnar sem dæmdur hefur verið fyrir barnaníð.

Hann var sakfelldur fyrir að hafa misnotað tvo drengi innan veggja dómkirkjunnar í Melbourne árið 1996 er hann var erkibiskup borginnar og annan þeirra aftur árið 1997. Pell hlaut sex ára fangelsisdóm í fyrra en hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu.

Pell sagði er áfrýjun hans var tekin fyrir af áfrýjunardómstóli í Melbourne að dómurinn hefði verið ósanngjarn vegna þess að hann byggði einkum á vitnisburði eftirlifandi fórnarlambs hans. Annar drengjanna lést úr of stórum skammti eiturlyfja árið 2014.

Mynd með færslu
 Mynd: Supreme court of Victoria
Dómarar við áfryjunardómstólinn.

Verði fallist á röksemdir kardinálans verður réttað aftur í málinu eða honum sleppt.

Í yfirlýsingu frá Páfagarði kom fram að sakfelling hans hefði verið þungbær en hann hefði rétt á að verja sig eftir fremsta megni. Pell var brottrekinn úr innsta hring Frans páfa í desember og skipun hans sem fjárhirðis Páfagarðs rann út fyrr á þessu ári.