Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kanye skiptir um nafn og ferðast til Afríku

Mynd með færslu
 Mynd: TMZ

Kanye skiptir um nafn og ferðast til Afríku

02.10.2018 - 15:16

Höfundar

Rapparinn, tónlistarmaðurinn og upptökustjórinn Kanye West segist ætla að ferðast til Afríku til að klára að taka upp nýjustu breiðskífu sína, Yandhi, sem hann sagði fyrir helgi að ætti að koma út síðasta laugardagskvöld. Þá hefur hann breytt listamannsnafninu sínu í Ye.

Þetta hefur verið mjög annasamt ár hjá tónlistarmanninum sem gaf út fimm plötur með viku millibili í sumar, bæði með sjálfum sér og öðrum listamönnum, en þar sem hann var þó alltaf potturinn og pannan í lagasmíðum og upptökustjórn. Þá vakti hann mikla athygli í fjölmiðlum í fyrravor fyrir stuðningsyfirlýsingar við Donald Trump og vafasamar fullyrðingar um sögu þrælahalds í Bandaríkjunum.

West hefur vaðið á súðum í fjölmiðlum, Saturday Night Live og samfélagsmiðlum undanfarna daga sem hófst með tilkynningu fyrir helgi um að hann myndi gefa út plötuna Yandhi á laugardagskvöld. Sú tilkynning kom degi eftir að rapparinn Lil Wayne, tilkynnti óvænt útgáfu plötunnar The Carter pt. 5 á föstudeginum. Hann tók síðan til við að tísta án afláts, og sagðist meðal annars vilja afnema 13. viðaukann við stjórnarskránna sem afnam þrælahald í Bandaríkjunum. Hann var harðlega gagnrýndur fyrir það, meðal annars af Lönu Del Ray og Questlove, en svaraði þeim fullum hálsi með því að 13. viðaukinn í raun viðhaldi þrælahaldi í öðru formi, með undantekningunni sem það veiti fyrir nauðungarvinnu fanga. Kanye hefur áður valdið fjaðrafoki með ummælum um þrælahald þegar hann sagði í viðtali í vor að þrælahald í 400 ár hljómaði eins og val fyrir honum. 

Á laugardagskvöld kom svo engin plata frá Kanye en hann kom hins vegar fram í sketsa-þættinum Saturday Night Live. Þar flutti hann nýlegt lag sitt I Love It í félagi við Lil Pump, þar sem þeir voru klæddir upp sem risastórar vatnsflöskur, hann tók svo einnig nýtt lag með söngkonunni Teyönu Tailor, og Ghost Town af samstarfsplötu sinni og Kid Cudi.

Mynd með færslu
 Mynd: SNL
Kanye og Lil Pump í gervi vatnsflaskna í atriði sínu í Saturday Night Live.

Það var hins vegar ekki tónlistarflutningur Kanye sem vakti mesta athygli heldur stóryrtar einræður hans utan myndavélarinnar fyrir áhorfendur og starfsfólk í myndveri.

Þar hélt hann áfram að lýsa yfir dálæti sínu á Donald Trump, og hans svar til þeirra sem segðu að Trump væri rasisti væri: „Ef ég hefði áhyggjur af rasisma hefði ég flutt frá Bandaríkjunum fyrir löngu síðan.“ Þá gagnrýndi hann fjölmiðla fyrir hlutdrægni og sagði þá vera „90% frjálslynda.“ Hann kom fram með svokallaða „Make America Great Again“ derhúfu sem var hluti af kosningabaráttu Donalds Trumps en sagði að starfsfólk Saturday Night Live hafi lagt hart að honum að sleppa húfunni, en Donald Trump sjálfur lýsti yfir mikilli ánægju með Kanye og tiltækið í eigin tísti.

Í gær kom það svo fram í tísti frá eiginkonu Kanye, Kim Kardashian West, að Yandhi platan myndi koma út 23. nóvember næstkomandi sem Kanye staðfesti svo í viðtali við slúðurveituna TMZ í dag. Þar sagði hann einnig að platan myndi verða „heil“ Kanye-plata og þær fimm sjö laga plötur sem komu út í sumar hafi verið eins konar „ofurhetju-endurhæfing“. „Nú er hinn eini sanni geimveru-Ye kominn aftur, ekki á lyfjum, andandi eins fersku lofti og hann getur, hugsandi, gerandi og verandi ég sjálfur. Og þegar ég segi það meina ég ekki að vera Donald Trump, heldur vera pönkarinn sem ég er. Ég má klæðast hverju sem er því ég er guð,“ segir Kanye við TMC áður en hann bendir á Trump MAGA húfuna sína.

Á nýju plötunni Yandhi verða gestirnir XXXtentation sem lést í sumar og 6ix9ine sem hefur verið ákærður fyrir margvísleg kynferðisbrot gagnvart stúlkum undir lögaldri. Kanye sagðist ekki hafa klárað Yandhi fyrir laugardagskvöldið því platan væri á einhvern hátt of stór fyrir hlustendur. „Það er nauðsynlegt fyrir mig að ferðast til Afríku til að klára hana, finna fyrir loftinu og handleika jarðveginn þar,“ sagði hann við TMC.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Kanye West veiddi Paul McCartney í gildru“

Tónlist

Geðhvörf og nett vonbrigði frá Wyoming

Tónlist

Læðist aftan að þér með lágstemmdri ágengni

Tónlist

„Þrældómur í 400 ár hljómar eins og val“