Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kannski var þetta bara heppni

18.06.2018 - 16:08
Mynd: Herbert Sveinbjörnsson / Aska heimildarmynd/Skjáskot
Fjórtánda apríl 2010 opnaðist jörðin í Eyjafjallajökli í annað sinn á innan við mánuði og vakti gosið heimsathygli. Þegar flugsamgöngur komust aftur í eðlilegt horf hvarf áhugi heimsins en mikil eyðilegging blasti við bændum. Fylgst er með uppbyggingarstarfinu í heimildarmyndinni Ösku sem er á dagskrá RÚV í kvöld klukkan 22:00.

Ólafur Eggertsson bóndi á Þorvaldseyri er meðal viðmælenda í myndinni en bærinn er undir eldfjallinu. Í heimildarmyndinni lýsir Ólafur þeim gríðarlega létti sem hann fann þegar búið var að hreinsa þök og moka úr görðunum og keyra ösku burt úr nánasta umhverfi. „Það lyfti sálinni vel upp og það er mjög mikils virði,“ segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: Herbert Sveinbjörnsson - Aska heimildarmynd/Skjáskot
Fjögur hundruð tonn af ösku voru fjarlægð úr landi Þorvaldseyrar fyrstu vikurnar eftir að gosi lauk.
Mynd með færslu
 Mynd: Herbert Sveinbjörnsson - Aska heimildarmynd/Skjáskot
Jökullinn þakinn ösku.

„Á þessari viku sem var verið að hreinsa, og við vorum að fara aftur yfir svæðin og hreinsa betur, þá keyrðum við í burtu um fjögur hundruð tonnum. Það var bara nærumhverfið í kringum búið okkar,“ segir Ólafur. „Þetta er alveg ótrúlegt magn og þá getur maður ímyndað sér hversu mikið magn það er allt sem hefur lagst hér undir.“ Ólafur lítur þó á björtu hliðarnar. „Ef maður ætti að velja einhvern tíma hvenær gos ætti að koma upp, af því að það kom þá er þetta snemma að vori, þá eru allar skepnur inni.“

„Maður getur svo sem ekkert valið sér tímasetningu en kannski var þetta bara heppni.“

Ári eftir að gosið hófst opnaði heimilisfólkið á Þorvaldseyri gestastofu, sýningu og safn þar sem fólk getur fengið innsýn í það hvernig er að búa undir virku eldfjalli.  

Aska er heimildarmynd eftir Herbert Sveinbjörnsson. Hún verður sýnd á RÚV klukkan 22:00 þann 18. júní 2018. Myndin verður í framhaldinu aðgengileg í spilara RÚV.