Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Kannski rökrétt eftir það sem undan er gengið

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra. Hann segir sveitarfélögin á heildina litið treysta sér til að ganga á eigið fé sitt að einum þriðja. - Mynd: RÚV / RÚV
Það er kannski rökrétt að Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík, segi sig úr Framsóknarflokknum eftir það sem á undan er gengið. Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins. Hann vísar þar til samstarfsvandræða í borgarstjórnarflokki Framsóknar og flugvallarvina og orðræðu Sveinbjargar um íslam og hælisleitendur sem ekki hafi verið í samræmi við stefnu flokksins.

„Ég virði auðvitað hennar ákvörðun. Þrátt fyrir öflugt starf í Reykjavík þá hefur líka legið ljóst fyrir að þar hafa verið átök, bæði milli manna og skoðanaágreiningur,“ segir Sigurður Ingi.

„Það hefur líka komið skýrt fram að sú umfjöllun sem var í sumar, og ég hef lýst skoðun minni á þeim ummælum Sveinbjargar sem ekki samræmdust stefnu flokksins, að kannski er þetta bara eðlilegt framhald á því sem við höfum verið að sjá, annars vegar í samstarfserfiðleikum og svo einhverjum túlkunum á skoðunum,“

Aðspurður hvort þetta sé uppgjör í deilum um sumar yfirlýsingar Sveinbjargar segir Sigurður Ingi að ákvörðunin um að segja sig úr Framsóknarflokknum sé hennar. „Flokkurinn og ég höfum ekkert komið nálægt því að taka þessa ákvörðun. Þetta er alfarið hennar ákvörðun.“

„Það er alltaf vont að missa fólk en það er líka ljóst að hún hefur haft uppi orðræðu sem er ekki í samræmi við stefnu flokksins. Kannski er þetta rökrétt framhald af því,“ segir Sigurður Ingi. „Nú er það í höndum okkar sem erum í flokknum og störfum á hans vettvangi að skýra stefnuna og koma fram með öflugum hætti. Þá vona ég að við uppskerum vel.“

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV