Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Kannski myndast meirihluti fyrir kosningum“

05.12.2016 - 12:23
Mynd: RÚV / RÚV
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki vita hvað gerist næst í stjórnarmyndunarviðræðum - það geti vel verið að það komi enn fleiri möguleikar upp. „Svo eru sumir sem segja að það eigi að ganga aftur til kosninga. Kannski myndast meirihluti á þinginu fyrir því að það eigi að kjósa aftur,“ segir Bjarni.

Engar formlegar viðræður eru hafnar um myndun nýrrar ríkisstjórnar eftir að Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, fékk stjórnarmyndunarumboðið. Fastlega er þó búist við því að þær hefjist á næstu dögum milli Pírata, Samfylkingar, VG,  Bjartrar framtíðar og Viðreisnar.

Bjarni hefur áður lýst yfir efasemdum sínum um slíkt samstarf og hann ítrekaði þær áður en hann settist inn á fund með formönnum allra flokka í morgun. Hann sagðist hafa verið skýr með að menn hafi verið alltof fastir í skotgröfunum frá kosningum og segir að hugmyndin um fimm flokka stjórn sé mögulega rómantísk í huga einhverra. „En ég held að kjósendur hafi ekki verið að leita að lægsta samnefnaranum á Alþingi. Hann kannski fæst í fimm flokka ríkisstjórn en mér finnst það ekki heillandi hugmynd.“

Bjarni segir að samstarf Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sé ekki fullreynt. Engar viðræður hafi farið fram um helgina. Hann hafi þó komið þeim skilaboðum áleiðis til formanna flokkanna tveggja að hann telji að það eigi að skoða frekar. „En hver veit hvað gerist næst?  Það getur vel verið að það komi enn fleiri möguleikar upp. Svo eru sumir sem segja að það eigi bara að ganga aftur til kosninga. Kannski myndast meirihluti á Alþingi fyrir því að kjósa aftur.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV