Kannski að taka við hlutverki Framsóknar

Mynd með færslu
 Mynd:
Með því að mynda meirihluta til hægri og vinstri sýnir Björt framtíð að flokkurinn er ekki afleggjari frá Samfylkingunni. Þetta segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði. Nýr meirihluti í Hafnarfirði kynnir málefnasamning á næstu dögum.

Oddvitar Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Hafnarfjarðar ræddu stuttlega við fjölmiðla í dag, en í gær tilkynntu flokkarnir um meirihlutasamstarf.

„Þetta hefur verið skemmtilegt og uppbyggilegt og við vonumst til að geta klárað þetta á allra næstu dögum og við vonumst til að geta kynnt okkar málefnasamning og áherslur, jafnvel á þriðjudaginn,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks, sem verður formaður bæjarráðs.

Hvorugur oddvitinn vill gefa nokkuð upp um málefnasamninginn.

„Okkar áhersla hefur verið frá upphafi að stuðla að breiðu samstarfi í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og við erum ennþá á þeim buxunum. Ég held fast utan um þetta og við erum að vanda okkur,“ segir Guðlaug Kristjánsdóttir, oddviti Bjartrar framtíðar, sem verður forseti bæjarstjórnar.

Björt Framtíð hefur myndað meirihluta með Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi og í Hafnarfirði og sömu flokkar ræða saman á Akranesi. Í Reykjavík hallar flokkurinn sér hins vegar til vinstri, með Samfylkingu, Vinstri grænum og Pírötum.

Ólafur Þ. Harðarson segir það ekkert nýtt að allir flokkar geti unnið saman. „En það er enn auðveldara í sveitastjórnum þar sem er ekki mikill málefnalegur ágreiningur. Björt Framtíð sýnir með þessu að hún getur myndað meirihluta bæði með Sjálfstæðisflokknum og líka til vinstri og með því er hún kannski að sýna fram á að það sé ekki rétt sem sumir hafa haldið fram hún sé bara svona afleggjari frá Samfylkingunni.“

Ólafur segir hugsanlegt að flokkurinn sé að taka við hlutverki Framsóknarflokksins á miðju stjórnmálanna. Þó sé erfitt að álykta um landstjórnarmál út frá sveitastjórnarkosningum.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi