Kannar hugsanleg verkfallsbrot

17.03.2014 - 12:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Verkfallsstjórn framhaldsskólakennara ræddi í morgun hvað hugsanlega gæti talist verkfallsbrot í skólunum eins og hvaða kennslubúnaður er undir stjórn kennara. Þetta segir Sigurður Ingi Andrésson, formaður verkfallsstjórnar. Verkfallsstjórnin fer í nokkra skóla í dag.

Um það bil fimmtán til átjánhundruð framhaldsskólakennarar hófu verkfall í morgun. Þeir starfa í 26 ríkisreknum skólum og tveimur einkareknum. Það eru Tækniskólinn og Menntaskóli Borgarfjarðar.

Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar eru liðlega 25 þúsund nemendur í framhaldsskólum landsins en þar af má gera ráð fyrir að svonefndir ársnemendur það er þeir sem ljúka tilteknum einingafjöldi árlega séu rúmlega tuttuguþúsund. 

Verkfallsstjórn framhaldsskólakennara kom saman til fundar í morgun til að fara yfir þau álitamál sem komið hafa upp, segir Sigurður Ingi Andrésson formaður verkfallsstjórnar. „Við ætlum að fara á vettvang og ræða við nokkra skólastjóra og skoða aðstöðu í viðkomandi skólum til þess að reyna að setja okkur betur inn hvernig aðstaðan er og hvernig við leysum þau mál sem deilt er um,“ segir Sigurður.

Sigurður Ingi segir að athuga þurfi hvað megi og hvað sé bannað innan skólaveggjanna í verkfallinu. „Það er auðvitað spurningin um aðkomu nemenda að hinum ýmsa kennslubúnaði í skólunum. Hvort viðkomandi kennslubúnaður er undir stjórn kennara eða ekki. Það geta verið sérstakar stofur eða sérstök kennsluaðstaða sem að kennarar sjá um eða sjá ekki um.“

Sigurður Ingi gaf ekki upp í morgun nákvæm dæmi um það hvað það er í skólunum sem hugsanlega gæti verið verkfallsbrot. 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi