Kannað hvort fólk sé á hættusvæðinu

20.08.2014 - 12:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Enn er í gildi hættustig við Bárðarbungu og mikill skjálftavirkni á svæðinu. Hópur vísindamanna ætlar að kanna aðstæður við jökulinn en flugvél gæslunnar TF-SIF var kölluð heim í gær í ljósi aðstæðna. Sömleiðis á að kanna hvort einhverjar mannaferðir séu enn á hættusvæðinu.

Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, lenti á Reykjavíkurflugvelli í gærkvöld. Hún var kölluð heim frá landamæragæslu við Miðjarðarhafið vegna skjálftavirkninnar í Vatnajökli. Vélin er búin ratsjám sem geta nýst vísindamönnum til að fylgjast með breytingum á jöklinum og hugsanlegu hlaupi. Það er mikil virkni á svæðinu en hundruð skjálfta hafa orðið í nágrenni Bárðarbungu frá því á miðnætti.

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur er meðal þeirra sem fara í skoðunarflugið. Hann segir síst hafa dregið úr skjálftavirkni á svæðinu. Ef til þess kæmi að eldgos brytist út nú, þá væri það undir jökli, og af því hlytist heilmikið jökulhlaup. Þessvegna væri viðbúnaðurinn slíkur.

Nauðsynlegt sé að þekkja aðstæður sem allra best til að vera búin undir það versta. TF-SIF geti þar nýst vel. Teknar verði radarmyndir af Bárðarbungu og umhverfi, eftir farvegi Jökulsár á Fjöllum alveg til sjávar. „Þá höfum við gögn sem hægt er að nota, ef að til dæmis hlaup fer af stað. Ef þessir atburðir gerast að nóttu eða í mjög slæmu skyggni, þá væri hægt að fylgjast með framrás hlaups úr SIF, ofar skýjum þessvegna, og nota til þess þessi tæki. Þannig að SIF er mjög mikilvægt tæki að hafa ef til atburða dregur,“ segir Magnús Tumi.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi