Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kannabisrækt í niðurgröfnum, yfirbyggðum gámum

21.12.2018 - 11:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Lögreglan á Suðurlandi handtók tvo í byrjun vikunnar vegna kannabisræktunar. Húsleitir voru gerðar á sex stöðum í Rangárvallasýslu í samstarfi við fíkniefnadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Leitað var í tveimur niðurgröfnum gámum. Búið var að byggja smáhýsi ofan á þá til að fela ummerki um ræktun.

Ummerki um ræktun fundust í niðurgröfnu gámunum og einnig ummerki í uppsteyptum kjallara óbyggðs sumarhúss þar við. Niðurgröfnu gámarnir tveir og kjallarinn voru samtengdir með myndavélakerfi. Lögregla leitaði einnig í öðru sumarhúsi og stöðugámi, í honum fundust fimmtán kannabisplöntur í ræktun. 

Einn var handtekinn eftir húsleit á heimili og afhenti hann lögreglu búnað til ræktunar. Hann viðurkenndi að eiga ræktunina í gámnum við sumarbústaðinn. Hinn sem var handtekinn gat fylgst með myndavélunum í niðurgröfnu gámunum í síma sínum. Sá kvaðst sinna eftirliti með hýbýlunum en ekki eiga aðild að ræktuninni. Þeim var báðum sleppt að loknum yfirheyrslum. Lögreglan á Suðurlandi gefur ekki frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Mynd með færslu
 Mynd:
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir