Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kannabis það eina sem slær á verkina

27.06.2018 - 17:16
Mynd: Andri Freyr Viðarsson / Andri Freyr Viðarsson
Kara Ásdís Kristinsdóttir slasaðist illa í blílslysi fyrir um tveimur áratugum og hefur glímt við verki og afleiðingar þess allar götur síðan. Hún segir kannabis vera það eina sem dugi til að lina þjáningar sínar og er undrandi á því að stjórnvöld viðurkenni ekki lækningarmátt plöntunnar.

Kara opnaði sig um kannabisreykingar sínar í DV fyrir skemmstu og hún segir að mikið af fólki hafi sett sig í samband við hana síðan þá. „Fólk vill fá upplýsingar og fræðast um þetta sem er einmitt það sem ég vildi ná fram. Að fólk opni sig. Það eru auðvitað margir sem eru að spá í slæmu afleiðingunum. En ég trúi því að það sé aðallega þegar verið er að blanda mörgum lyfjum saman,“ segir Kara í samtali við Síðdegisútvarpið. Kara velti bílnum sínum fyrir tveimur áratugum og missti meðvitund og var sofandi í viku eftir á. Þá braut hún vinstri öxlina en á henni hafa verið gerðar ýmsar viðgerðir síðan auk þess sem hún hefur þjáðst af miklum verkjum.

En af hverju að nota kannabis í staðinn fyrir verkjalyf? „Ég tók alltaf mjög mikið af verkjalyfjum en mér fannst óeðlilegt að nota lyf með svona miklar aukaverkanir, kannabis hefur ekki nálægt því jafn miklar aukaverkanir.“ Sumar rannsóknir benda til þess að tengsl séu milli kannabisreykinga og geðsjúkdóma en Kara er ekki sérlega trúuð á slíkt. „Það tengist yfirleitt einhverjum fleiri lyfjum, það er vinsælt hér á landi að drekka og taka önnur lyf ofan í kannabis. Það er ekkert hægt að tengja þetta beint við kannabis, og fólk veit ekki hvað það er að tala um því þetta er ólöglegt og það má ekki rannsaka það.“

En þarftu þá að kaupa efnið af glæpamönnum fyrst það er ólöglegt? „Nei þetta eru bara almennir borgarar, almennilegasta fólk sem maður hittir. Ég lendi aldrei í neinum vandræðum,“ segir Kara. Það eins sem þurfi sé að verða sér úti um símanúmer en nóg af þeim sé hægt að finna í facebook-grúppum sem innihaldi þúsundir Íslendinga. Hún segir að fjölskylda sín og læknar setji sig ekki upp á móti neyslunni og hún hefur aldrei komist í kast við lögin vegna hennar. Kara vill ræða þetta opinberlega til að opna umræðuna um leigleyfingu Kannabis sem hún er mjög hlynnt. „Bara tekjurnar sem fengust af sölunni gætu verið stór partur af því að byggja upp heilbrigðis og skólakerfið. Peningarnir færu þá í að hjálpa fólki,“ segir Kara að lokum.

Rætt var við Köru Ásdísi Kristinsdóttur í Síðdegisútvarpinu.