Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kannabis hættulegt og eyðileggi líf

04.03.2018 - 12:32
Mynd: Mynd: KOX / Sveinn Snorri Sveinsson
„Það voru engin tilefni. Við vorum nokkrir strákar sem drukkum mikið og ég byrjaði strax að verða mjög fullur og að halda áfram að drekka eftir að ég vaknaði. Ég fer í þannig drykkju mjög fljótt að ég lendi í vandræðalegum uppákomum og aumkunarverðum aðstæðum hvað sjálfan mig varðar, gerði skandala og var alltaf á bömmer.“

Kannabis góður vinur í fyrstu

Þannig hefur Sveinn Snorri Sveinsson, rithöfundur á Egilsstöðum, sögu sína af áralangri misnotkun á áfengi og fíkniefnum sem hófst þegar hann var 14 ára gamall. Hann telur að kannabisneysla hafi valdið honum alvarlegum geðsjúkdómi sem hefur hrjáð hann allar götur síðan. „Þegar ég var 16 ára kynntist ég kannabis og á kannabis gerði ég enga skandala og ég varð ekkert úr sambandi og stjórnlaus eins og undir áhrifum áfengis. Í fyrsta sinn sem ég upplifði þessa vímu þá var það alveg æðislegt en þetta fíkniefni, sem var minn besti vinur, umbreytist í minn versta óvin.“

Geðveiki hreiðrar um sig

Sveinn segir að hann hafi reykt sig inn í geðklofa og að hann hafi verið mun veikari undir áhrifum kannabis. „Eftir eitt og hálft eða tvö ár er ég farinn að finna fyrir paranoju. Ég varð rauður í augunum þegar ég reykti hass og ég var skíthræddur um að foreldrar mínir sæju að ég væri rauður í augunum og þetta leiddi yfir í paranoju. Ég átti erfitt með augnsamband þegar ég var ekki undir áhrifum og gat illa haldið augnsambandi og fannst eins og fólk sæi inn í hugann á mér þegar það horfðist í augu við mig. Þarna er ákveðin geðveiki farin að hreiðra um sig.“

Leist illa á heilræði frá „dílernum“

Næstu ár fer Sveinn Snorri inn og út af geðdeild, brýtur af sér og lendir í miklum ógöngum. „Þá segir dílerinn minn við mig. Geturðu ekki bara sagt þeim að þér líði betur þegar þú reykir? Hann vissi greinilega ekkert um skaðann sem kannabisið var að valda mér. Það var ekki þannig að mér liði betur þegar ég var að reykja kannabis, mér leið miklu verr. Og ég gerði mér ekki grein fyrir því sjálfur, ég hafði ekki innsýn í mitt eigið ástand.“

Fann botninn eftir innbrot og innlagnir

Sveinn Snorri var sviptur sjálfræði árið 1996 en hafði reyndar verið sviptur tímabundið áður inni á geðdeild. „Ég frem afbrot, brýst inn í fyrirtæki og geri hluti sem enginn vill gera. Ég vildi ekki vera þessi einstaklingur sem ég var orðinn. Ég fer þarna á það sem kallað er botn hjá okkur alkóhólistum; fer í endimörk reynslunnar sem fíkniefnaneytandi. Á stuttu edrútímabili sem ég fékk að eiga sá ég að allir í kringum mig voru illa snortnir af minni reynslu. Minni neyslu. Mínir foreldrar og ættingjar. Ég átti að baki um 30 innlagnir á geðdeild og Vog á stuttum tíma. Ég gat ekki gert fjölskyldu minni þetta, ég gat ekki gert mínum æðri mætti þetta og ég gat ekki gert sjálfum mér þetta. Ég lagði pípuna á hilluna 29. september 1998 og ég hef ekki neytt vímuefna síðan þá.“

Geðrof á hverjum degi í 11 ár

Sveinn Snorri tókst á við fíknina með svokallaðri 12 spora vinnu sem hann segir grunninn að sinni edrúmennsku. En það áttu eftir að líða mörg ár áður en hann leit glaðan dag á ný. „Ég fór í geðrof á hverjum einasta degi í 11 ár en síðan fannst rétta lyfið 2009 og þá hurfu kannski um 80% af ranghugmyndunum. Þetta er eins og það hefði verið loftbor fyrir utan heimili mitt dag og nótt í þessi 11 ár með ærandi hávaða og svo allt í einu heyrist ekkert. Þetta var mikill léttir.“

Hjálpar öðrum í svipaðri stöðu

Undanfarin ár hefur Sveinn Snorri hjálpað öðrum í svipaðri stöðu í gegnum 12 spora starfið. „Þá förum við yfirleitt tveir eða tvö og reynum að hitta alkóhólista sem er þunnur og eftir sig um morguninn. Þá erum við að tala um einstakling sem er kominn á álíka botn og við sjálf eða sjálfir höfum reynslu af að lenda á. Við reynum einfaldlega að fá viðkomandi með einhverjum ráðum að taka leiðsögn eða gera hluti sem geta valdið því að hann verði edrú. Þetta er nú hlutur sem tekst ekki alltaf en það er svo gefandi að sjá jafnvel að 15 árum seinna er einstaklingurinn sem þú fórst til og tókst að tala til; hann er ennþá edrú.“

Jákvæð upplifun þangað til fólk reykir sig inn í skaðann

Hann er ómyrkur í máli þegar hann er spurður um skoðun hans á lögleiðingu kannabis. „Þetta er miklu hættulegra efni heldur en skilaboð eru um í þjóðfélaginu okkar. Nú ætla ég ekki að tala niður til einhvers en það er oft þannig að fólk sem talar fyrir lögleiðingu kannabis það er fólk sem er sjálft í neyslu. Það er svo stutt á veg komið í neyslunni að það er ennþá að upplifa jákvæð áhrif efnisins. Það er ekki sjálft búið að reykja sig inn í skaðann eða andleg veikindi eða hvað það er. Það er ákveðið hlutfall þessa hóps sem á eftir að verða illa á vegi statt vegna kannabisneyslu. Mín reynsla er sú að þetta er stórhættulegt fíkniefni og þetta eyðileggur líf þitt. Ég er búinn að vera öryrki síðan 1995 og ef ég reyni mikið á mig þá verð ég veikari af geðklofanum og geðhvörfunum. Ég þoli ekki að einbeita mér mikið. Svona getur farið fyrir mörgum kannabisneytandanum.“ 

Frábært en hættulegt að reyna á sig við skriftir

Eftir að rétta lyfið fannst hefur líf Sveins Snorra breyst til hins betra og hann giftist konunni sinni árið 2015 og þau búa saman á Egilsstöðum. „Ég hef átt bara stórkostlegt líf mestmegnis. Ég er ennþá veikur og er ennþá að fá mjög slæmar ranghugmyndir af og til en lífið, sem ég hef átt eftir þetta, er lífið sjálft.“ Sveinn Snorri hefur gefið út 10 ljóðabækur og myndasögu. Hann er með í vinnslu heimildaskáldsögu og nóvellu eða stutta skáldsögu. „Þetta er bara frábært og hættulegt. Ég er öryrki og ég fæ ranghugmyndir af áreynslunni. Ég sit fyrir framan tölvuna og ég pikka inn. Ranghugmyndirnar koma eftir svona einn og hálfan til tvo tíma og ég fer í slæmt hugarástand. Ég held áfram. Ég hef rétt svo heilsu í þetta en samt tekst það.“

Rætt var við Svein Snorra í Sögum af landi á Rás 1 í dag. Hlusta má á viðtalið í spilaranum hér að ofan en þar lýsir Sveinn meðal annars því hvernig 12 spora starfið fer fram. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV