Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kanna verður samkeppnisstöðu orkufreks iðnaðar

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra iðnaðarmála, segir að draga verði fram betri upplýsingar en nú eru aðgengilegar um samkeppnishæfni orkufreks iðnaðar á Íslandi. Hún segist hafa áhyggjur þegar fréttir berist eins og þær sem bárust í dag af Rio Tinto Alcan.

Forsvarsmenn Rio Tinto Alcan hafa kvartað undan því að raforkuverð sé hátt. Forstjóri Landsvirkjunar hefur sagt að lágt álverð skýri hluta vandans.

„Samtal milli fyrirtækisins og Landsvirkjunar eru á frumstigi. Við verðum að sjá hvað kemur út úr því,“ sagði Þórdís Kolbrún í Tíufréttum í sjónvarpi. „Auðvitað er álverð lágt. Þessi þróun og breyting sem hefur átt sér stað hefur að sjálfsögðu áhrif á álfyrirtæki hér á landi eins og annars staðar í Evrópu. Það er nú þannig að það hefur ekkert álver verið byggt í Evrópu undanfarin tíu ár. Uppbyggingin er ofboðslega mikil í Kína. Það er mjög erfitt að keppa við það. Það eru vissulega aðrir þættir líka.“

„Ég hef kallað eftir óháðri úttekt á samkeppnishæfni orkufreks iðnaðar á Íslandi, sem aldrei hefur verið gert, til að komast nær því hvað er raunverulega í gangi, hver þróunin er og hver staðan er,“ sagði Þórdís. Hún sagði að afla yrði dýpri þekkingar á stöðunni og nálgast viðfangsefnið úr fleiri áttum svo meiri vitneskja yrði til um það.

Aðspurð hvort hægt væri að breyta reglum fyrir eitt fyrirtæki svaraði ráðherra. „„Við erum auðvitað bundin af EES-regluverki. Allir ríkisstyrkir og allt slíkt er óheimilt,“ sagði Þórdís en bætti við að raforkumarkaður eigi eftir að breytast og þróast. „Fleiri aðilar gætu komið með raforku inn á markað. Við erum ekki með virkan raforkumarkað.“