Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Kanna þarf bakgrunn og sögu barna á flótta vel

12.02.2016 - 17:12
Mynd: RÚV / RÚV
„Barnaverndarstofa hefur varað okkur við því að vista börn án fylgdarmanna, stálpaða drengi inni á heimilum með öðrum börnum þegar við þekkjum ekki áfallasögu þeirra, þekkjum ekki afbrotasögu þeirra og vitum ekki hvort þeir eru börn eða fullorðnir. Við verðum bara að fara varlega. VIð viljum þessum ungu mönnum allt hið besta en við verðum að tryggja aðstæður þannig að það sé til gagns fyrir þá sjálfa, til framtíðar,“ segir Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Barnaverndar Reykjavíkur.

 

Oft eldri en þeir segjast vera

Halldóra segir að fylgdarlaus börn sem hér leiti hælis fái lágmarksþjónustu og barnaverndaryfirvöld vildu gjarnan gera betur. Hún vill að ríki og sveitarfélög komi sér saman um sameiginleg úrræði þessum börnum til handa. Það sé ekki endilega besta lausnin að senda þau í fóstur. Þá segir hún aldursgreiningar oft nauðsynlegar. Reynslan sýni að ungmenni sem hingað koma í hælisleit séu oft talsvert eldri en þau segist vera.

Segir börnin ekki örugg í miðstöðinni

Fylgdarlaus börn sem hér leita hælis heyra undir barnaverndaryfirvöld í lögregluumdæminu sem þau gefa sig fram í. Ungmenni sem heyra undir Barnavernd Reykjavíkur eru vistuð á fjölskyldugangi móttökumiðstöðvar fyrir hælisleitendur í Hafnarfirði. Þar dvelja nú þrír drengir, tveir frá Afganistan og einn frá Albaníu. Guðríður Lára Þrastardóttir, réttargæslumaður hælisleitenda hjá Rauða krossi Íslands, gagnrýndi þetta fyrirkomulag í Spegli gærdagsins

„Við erum með fjórtán og fimmtán ára gömul börn sem hafa verið núna í bráðum einn og hálfan mánuð í móttökumiðstöð í Bæjarhrauni með fullorðnu fólki.“

Hún telur að börnin njóti ekki nægilegrar verndar, þau séu útsett fyrir misnotkun og að vænlegra væri að senda þau beint í neyðarvistun fyrir börn eða í fóstur. Þá sagði hún verkaskiptingu milli þeirra stofnana sem koma að hælismeðferð fylgdarlausra barna óskýra og að Rauði krossinn hafi þurft að benda barnaverndaryfirvöldum á það að þeim beri sama skylda til þess að sinna þessum börnum og íslenskum börnum. 

Hlýða má á viðtalið við Halldóru í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan. 

 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV