Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kanna svifryks- og blýmengun yfir áramót

21.12.2018 - 14:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Umhverfisstofnun ætlar að rannsaka svifryksmengun fimm daga fyrir og eftir næstu áramót, þar sem blý verður meðal annars mælt í andrúmsloftinu. Stofnunin hefur tekið í notkun nýja heimasíðu þar sem hægt verður að kanna loftgæðin á mælistöðvum víðsvegar um landið.

Á síðunni er bæði hægt að skoða allt landið og velja eina mælistöð sérstaklega og kanna hvaða loftmengunarefni eru að mælast. Einhverjir eru eflaust farnir að velta fyrir sér hvernig áramótin verða, hvort þá verði álíka mengun og um síðustu áramót. Aðspurður segir Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur á Umhverfisstofnun, að fólk eigi að leita eftir svifryksgildum vilji það kanna á nýju síðunni loftmengun af völdum flugelda í sínu næsta nágrenni. Aldrei hefur mælst eins mikið svifryk, PM10, á höfuðborgarsvæðinu og á nýársnótt fyrir tæpu ári. 

„Fyrir áramót setjum við upp svifrykssafnara, sem safnar ryki á síu. Þar safnast saman rykið og öll efni í því, og svo skiptir mælitækið um síu einu sinni á sólarhring,“ segir Þorsteinn. Síurnar verði svo sóttar og farið með þær í efnagreiningu. Hann segir að það taki nokkrar vikur að vinna úr gögnunum þannig að skýrslu sé í fyrsta lagi að vænta í lok janúar. Þorsteinn segir að sambærilegar mælingar hafi verið gerðar um síðustu áramót. „Við gerum meira núna, verðum með betri mælingar en þær verða að einhverju leyti sambærilegar.“ 

Þorsteinn segir að ef gildi PM 10 svifryks mælist hátt þá mælist einnig mikið af fínna svifryki, PM 2,5. Reykjavíkurborg sá ástæðu til þess að vara sérstaklega við háum styrk köfnunarefnisdíoxíðs og svifryks í borginni í gær og hvatti fólk til að skilja bílinn eftir í dag, ef það hefði tök á. 

Fram kom í Speglinum í fyrradag að af 20 sýnum, sem Umhverfisstofnun tók úr flugeldum í byrjun ársins, reyndist eitt innihalda þúsund sinnum meira blý en hvert hinna. Sýnið var úr kúlublysi sem PEP International flytur inn og hefur Neytendastofa bannað sölu á blysinu tímabundið. Þorsteinn segir að á nýju loftgæðasíðunni sé ekki hægt að sjá mælingar á blýmengun. Það sé vegna þess að nýja síðan sé með sjálfvirk nettengd mælitæki en blý sé ekki mælt þannig. „Það þarf að safna sýnum á síur, fara á staðinn og sækja síurnar og fara með í greiningu.“

Á vefsíðunni um loftgæði kemur fram að gögnum frá íslensku mælistöðvunum sé miðlað á evrópska loftgæðavefinn þar sem sjá megi stöðu loftgæða hér á landi í samanburði við önnur lönd í Evrópu. Þorsteinn segir að ekki sé búið að tengja allar stöðvar við evrópsku síðuna en þær verði flestar tengdar þangað á endanum. Þorsteinn segir að mælistöðvar við virkjanir landsins verði ekki tengdar inn á evrópsku síðuna vegna þess að brennisteinsvetni sé ekki mælt í Evrópu. „Nema til dæmis í Finnlandi frá pappírsverksmiðjum og olíuhreinsunarstöðvum í Eistlandi.“