Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Kanna nýjan útsýnisstað nær jarðeldunum

17.02.2015 - 13:54
Mynd með færslu
 Mynd:
Fyrirtæki í ferðaþjónustu ætla á morgun að kanna nýjan útsýnisstað á gosið í Holuhrauni sem opnaðist eftir að lokunarsvæði var minnkað. Þar má skoða gosið úr 10 kílómetra fjarlægð í stað 25 kílómetra áður. Metið verður hvort upplifunin sé nógu sterk til að selja ferðir á staðinn.

Lagt verður af stað upp úr hádegi á morgun í þeim tilgangi að sjá til gosstöðvanna í ljósaskiptunum. Leiðin liggur á hjarni um Dyngjufjalladal og suður fyrir fjall sem heitir Kattbekingur og er norðvestur af gosinu.

Í beinni sjónlínu við eldana
Yngvi Ragnar Kristjánsson, oddviti Skútustaðahrepps og framkvæmdastjóri Mývatns ehf., er einn þeira sem ætla að skoða nýja útsýnistaðinn. „Þá erum við í svona tíu kílómetra fjarlægð en vorum áður í einhverjum 25. Þar sem við vorum áður þar voru fjöll á milli en þarna er orðin bein sjónlína frá þessum stað. Sjáum vonandi einhverja glóð og bjarma og eldtungur. Svo yrði ekkert leiðinlegt að sjá norðurljós á bakaleiðinni.“

Vilja ekki valda ferðamönnum vonbrigðum
Tilgangur ferðarinnar er að kanna hvort grundvöllur sé fyrir því að selja útsýnisferðir að gosstöðvunum. Gosið sést ekki eins vel og áður eftir að gígurinn hækkaði og mikilvægt er að valda ferðamönnum ekki vonbrigðum.

„Það verður að skoða það til að geta sagt til um það hvernig staðan er,“ segir Yngvi. „Það er alltaf stórbrotið að fara til fjalla og hvað þá þangað sem nýtt land er að verða til. Nú er bara spurningin, er þetta það mikið að menn fái þessa upplifun sem menn vonast til að fá þegar menn tala um eldgos?“

Hálft ár síðan jarðhræringarnar hófust
Jarðeldarnir norðan Vatnajökuls eru enn öflugir, þótt dregið hafi úr kraftinum. Þetta segir í skýrslu Vísindamannaráðs almannavarna frá því í morgun. Hálft ár var í gær síðan jarðhræringarnar í Bárðarbungu hófust, 16. ágúst.

Mikil jarðskjálftavirkni er enn í eldfjallinu. Stærsti skjálftinn síðustu daga var af stærðinni 4,5 á föstudagskvöld. Ekki hefur mælst skjálfti yfir fimm frá 8. janúar. Gosið hefur í á sjötta mánuð og enn er hraunflæði mikið og hraði öskjusigsins í Bárðarbungu verulegur.