
Kanna möguleikann á fermingum í gegnum netið
Fermingar ekki í hættu
Fermingartímabilið hefst í lok mars og þúsundir ungmenna bíða þess að fermast. Pétur Georg Markan, samskiptastjóri Biskupsstofu, segir að kirkjan fylgi fyrirmælum almannavarna um samkomur og mögulegt bann við þeim. Hann segir að fermingar vorsins séu ekki í hættu.
„Það verða alltaf fermingar í vor. Kirkjan hefur nú glímt við margs konar verkefni í gegnum aldirnar og þetta er bara eitt verkefni sem kirkjan og samfélagið mun sigrast á á endanum. Hér inni hefur farið fram umræða um hvernig við gætum sent út svona viðburði, á netinu hreinlega. Þannig að við erum að vinna hérna á Biskupsstofu mögulegar útfærslu á fermingum og messum ef að til þess kemur að sett verði á samkomubann,“ segir Pétur.
Ekkert helgihald á Siglufirði
Þó svo að Biskupsstofa ætli ekki að aflýsa helgihaldi um sinn er það ákvörðun hvers sóknarprests fyrir sig. Í morgun var sagt frá því að ekkert opinbert helgihald yrði í Siglufjarðarkirkju í marsmánuði.
„Það er ákvörðun sóknarprestsins á Siglufirði sem hann væntanlega tekur í ljósi aðstæðna í samfélaginu. - Er þá hverju prestakalli fyrir sig heimilt að setja á slíkt bann ef þeim sýnist svo?- Já það þarf hver og einn sóknarprestur að meta svolítið aðstæður í sínu samfélagi, það er svolítið þannig,“ segir Pétur.