
Kanna hvort takmarka eigi snjallsímanotkun
Niðurstaðan var breytingartillaga við tillögu sem Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, lagði til á fundi borgarstjórnar en tillagan var tekin fyrir á fundi borgarstjórnar á þriðjudag. Tillaga Sveinbjargar gekk lengra því hún lagði til að með samráði yrðu lagðar reglur sem miðuðu að því að banna með öllu notkun snjalltækja í skólum og frístundastarfi.
Breytingartillagan sem samþykkt var er eftirfarandi: „Borgarstjórn felur skóla- og frístundasviði að efna við víðtæks samráðs við skólastjórnendur, kennara, nemendur, foreldra, sérfræðinga skólaþjónustu, frístundaráðgjafa og fulltrúa heilsugæslu og landlæknisembættis, um hvort tilefni sé til að setja viðmið um takmörkun á snjalltækjanotkun og skjátíma nemenda í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Tekið verði mið af erlendum fyrirmyndum og rannsóknum í þessari vinnu.“
Sveinbjörg Birna lagði til í sinni tillögu að skóla- og frístundasviði yrði að setja reglur „í samráði við skólastjórnendur, kennara, frístundaráðgjafa, skólasálfræðinga og hagsmunaaðila nemenda og foreldra, sem miða að því að banna með öllu snjallsímanotkun nemenda á skólatíma og í frístundastarfi í grunnskólum borgarinnar.“
Sveinbjörg segir í bókun að hún hafi samþykkt málamiðlunartillöguna til þess að tryggja að hreyfing komist á málið „og þeir mikilvægu hagsmunir grunnskólanemenda um vonandi snjallsímalausa grunnskóla verði að veruleika strax við upphaf næsta skólaárs.“