Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Kanna hvort skipamengun safnist upp í firðinum

12.03.2018 - 09:13
Umhverfisstofnun ætlar að setja upp mæla á Seyðisfirði til að fylgjast með mengun frá ferjunni Norrænu og skemmtiferðaskipum. Sumir íbúar óttast að í logni geti mengun safnast upp í lokuðum firðinum.

Ferjan Norræna kemur til Seyðisfjarðar í hverri viku frá Danmörku með viðkomu í Færeyjum. Á veturna stoppar hún í nánast tvo sólarhringa og á meðan ganga ljósavélar skipsins, framleiða rafmagn og reykur liðast upp um strompinn. Á sumrin koma líka skemmtiferðaskip til Seyðisfjarðar. Komum þeirra hefur fjölgað ört og hafa heimamenn óskað eftir að uppsöfnun mengunar verði mæld. Nú stendur til að mæla brennisteinsdíoxíð, svifryk og jafnvel nituroxíð í firðinum. „Íbúarnir hafa haft áhyggjur af loftmengun frá skipunum. Allavega hluti þeirra. Landfræðilegar aðstæður haga því kannski að hér er skýlt og þröngur fjörður þannig að þetta er liður í því að leggja mat á stöðuna. Við höfum spurst fyrir um þetta áður, ég held ég megi segja fyrir ári síðan hjá Umhverfisstofnun. Það er að bera árangur núna. Það er að losna hjá þeim mælir sem þeir geta sett hingað,“ segir Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri á Seyðisfirði.

Smyril Line sem rekur Norrænu setti mengunarvarnabúnað í skipið fyrir fjórum árum og endurnýjaði hann um áramótin. Rætt hefur verið um nauðsyn þess að tengja skipin við rafmagn svo að þau geti drepið á ljósavélum á meðan þau liggja við bryggju. „Þetta eru um 60 komur fyrir utan Norrænu. Þetta eru misjöfn rafkerfi, mismunandi tíðni, mismunandi spenna í skipunum og svo stoppa sum þeirra ekki það lengi að það þætti vænlegt að tengja þau, og þetta er mjög dýr framkvæmd að fara að útbúa fyrir stóru skemmtiferðaskipin. Þetta er svo mikil þörf hjá þeim. En Norræna er kannski hvað fýsilegust í þessu; að skoða hvort það er hægt að koma upp búnaði til að tengja Norrænu og en þá þarf að koma upp millispennubreyti,“ segir Vilhjálmur.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV