Kanna hvort kvika safnist fyrir

13.09.2015 - 20:37
Jarðvísindamenn kanna nú merki um að kvika geti verið farin að safnast aftur undir Bárðarbungu. Eldgosið í Holuhrauni var hluti af mikilli atburðarás sem hófst árið 1974, og gæti veitt vísbendingar um hegðun eldstöðvarinnar í framtíðinni.

Bárðarbunga hefur haft hægt um sig frá því að gosinu í Holuhrauni lauk. Nýjar mælingar benda til þess að eldstöðin gæti bært á sér á ný.

Næstu mánuðir skera úr um hvað er að gerast

„Þetta er stóra spurningin. Er kvika byrjuð að safnast aftur á þessu safnsvæði sem er þarna djúpt í jarðskorpunni eða ekki? Það eru vísbendingar um að svo geti verið, en það á eftir að skoða þettta betur. Og næstu mánuðir munu skera úr um þetta,“ segir Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði.

Merkin eru óljós, berast frá miklu dýpi, og eru numin af nýjum mælitækjum á svæðinu, sem jarðvísindamennirnir eru enn að læra á.

Eldgosið í Holuhrauni var hluti af atburðarás sem hófst í júní árið 1974. Þá hófust nokkuð reglulegir og stórir skjálftar í Bárðarbungu. Fyrsta kaflanum lauk 22 árum síðar, með Gjálpargosinu í september 1996. Eftir það hafði eldstöðin hægt um sig í nokkur ár. Fyrir nokkrum árum hófst svo ný skjálftahrina, sem lauk með gosinu í Holuhrauni í ágúst í fyrra, átján árum eftir Gjálpargosið. Kvikan kom úr Bárðarbungu, og askjan í henni seig um sextíu metra.

Næsta gos gæti verið í Bárðarbungu

Páll telur ekki ólíklegt að næst gjósi í bungunni sjálfri. „Bárðarbunga er sennilega öflugasta eldstöð landsins, og hún er náttúrulega fjall vegna þess að þar gýs oftast. Þetta eldstöðvakerfi sem Bárðarbunga er miðjan í gýs oft úti á sprungusveimunum, en enn oftar í bungunni sjálfri.“

Erfitt er að spá fyrir um hvenær Bárðarbunga bærir á sér næst, og hvort fyrri gos veita vísbendingar um næsta kafla í atburðarásinni. „Við eigum náttúrulega 30 eldstöðvakerfi hér, og þau eru hvert með sína skapgerð. Til þess að segja til um hvað sé líklegt að gerist á næstunni, þá þurfum við að þekkja þau dálítið persónulega.“

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi