Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kanna áhuga fjárfesta á sameinuðu félagi

07.03.2019 - 13:10
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
Samrunaviðræður Kjarnafæðis og Norðlenska hafa borið árangur. Vonast er til að fjárfestar komi að sameiginlegu félagi. Bændur og stjórnvöld eru sammála um að kjötafurðastöðvar þurfi að hagræða og vinna meira saman.

Sauðfjárbændur samþykktu með atkvæðagreiðslu sem lauk á mánudag samkomulag milli Bændasamtakanna og ríkisins um breytingar á samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar. Í samkomulaginu er sérstök bókun um mikilvægi þess að hagræða í afurðastöðvageiranum og að kannað verði hvort sláturleyfishafar geti átt í meira samstarfi en nú er. 

Fleiri eru á þessari skoðun, enda hefur rekstur kjötafurðastöðva verið þungur síðustu ár. Í ágúst í fyrra var tilkynnt um að Kjarnafæði og Norðlenska, tvö af stærstu matvælafyrirtækjum á Norðurlandi, ætluðu að hefja viðræður um samruna. Þar með talið er sláturhús SAH afurða á Blönduósi sem er í eigu Kjarnafæðis. 

Ekki fleiri afurðastöðvar en mögulega nýir fjárfestar

Íslandsbanki leiðir samrunaferlið en stjórnendur fyrirtækjanna tjá sig ekki um það. Í skriflegu svari frá bankanum kemur fram að félögin hafi átt í árangursríkum viðræðum. Ekki sé gert ráð fyrir að fleiri afurðastöðvar verði hluti fyrirhugaðs samruna og þá hafi engar ákvarðanir verið teknar um mögulega aðkomu fjárfesta. Kjarnafæði er í eigu bræðranna Eiðs og Hreins Gunnlaugssona en Norðlenska er í eigu um 500 bænda.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum fréttastofu hefur verið leitað til fagfjárfesta á Norðurlandi og þeim boðin aðkoma að sameinuðu félagi. 

Í svari Íslandsbanka segir að áreiðanleikakönnunum sé lokið. Unnið er að tilkynningu til samkeppnisyfirvalda, en samþykki þeirra er forsenda samruna. Stjórnendur fyrirtækjanna, eða aðrir sem koma að verkefninu, ætla ekki tjá sig frekar um viðræðurnar fyrr en meðferð samkeppnisyfirvalda er lokið. 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV