Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kanínuplágan vaxandi vandamál á Akureyri

19.09.2018 - 19:25
Villtar kanínur verða sífellt stærra vandamál á Akureyri. Þeim fjölgar stöðugt í bæjarlandinu og sviðsstjóri hjá bænum telur að auka þurfi forvarnir til að minnka útbreiðsluna. Íbúi í Giljahverfi óttast að kanínur éti uppskeruna úr garðinum hjá sér.

Kanínur voru til skamms tíma eingöngu í Kjarnaskógi og þar hefur þeim fjölgað gríðarlega undanfarin ár. Þær hafa aldrei sést meira við sumarbústaði í skóginum en í sumar. Starfsfólk í Karnaskógi þarf sífellt aukinn viðbúnað til að verja gróður fyrir kanínum. En nú sjást þær sífellt meira utan skógarins og hafa dreift sér víða um bæjarland Akureyrar.

Grafa holur í tjaldsvæðið á Hömrum

Tjaldsvæðið á Hömrum er í jaðri Kjarnaskógar og þar var allt morandi af kanínum í sumar, með tilheyrandi skemmdum. „Þær eru að grafa holur og sækja þá væntanlega í rætur til að éta. Og svo naga þær trjábörk á veturna og skemma þá nýgróður,“ segir Jóhann Malmquist, starfsmaður á Hömrum. Og fólk hefur misstigið sig í þessum holum, segir Jóhann. Þá grafa dýrin sig undir hús á svæðinu og hreiðra um sig þar. „Þær eru að sækja í hitann. Við reyndum nú að loka fyrir eftir bestu getu, með því að malbika, en höfðum ekki árangur sem erfiði. Þær komust nú samt undir malbikið, gátu klórað sig einhvernveginn þar í gegn.“ 

Kanínur hjá Gámaþjónustunni við Réttarhvamm 

Gámaþjónusta Norðurlands er langt frá Kjarnaskógi en þangað eru samt komnar kanínur. „Á morgnana og kvöldin þá láta þær á sér kræla hérna og eru að spígspora hérna um svæðið aðeins,“ segir Helgi Pálsson, rekstrarstjóri Gámaþjónustunnar. Það er talsverður tjágróður í nágrenninu þar sem kanínurnar halda sig. „Mér þykir nú líklegast að þeim sé sleppt hérna bara af þeim sem gefast upp á ræktinni heima við,“ segir Helgi.

Hafa sést í görðum húsa í Giljahverfi

Og nú sjást þessi skæðu nagdýr reglulega í görðum íbúðarhúsa sem liggja nálægt skógarreitum. Íbúar í Huldugili 66 eru með myndarlegan matjurtagarð og þar voru kanínur í vetur og skemmdu trjágróður. Aðalborg D. Benediktsdóttir segist hafa áhyggjur af gróðrinum þeirra. „Já, mig langar ekki í samkeppni við kanínur um matjurtirnar mínar. Eða bara gróðurinn almennt.“ Og hún segist hafa tilkynnt þetta til Umhverfismiðstöðvar Akureyrarbæjar. „Þeir komu hérna og sáu ummerkin og eru mjög opnir fyrir því að grípa inn í.“

Segir koma til greina að efla forvarnir gegn kanínum

Áætlað er að á vegum Akureyrabæjar hafi um 1.000 kanínur verið veiddar síðustu 3-4 ár, fyrst og fremst á veturna. En það virðist ekki duga til. „Akureyrarbær reynir að fara á staðinn ef að sjást einhverjar kanínur í bæjarlandinu og fjarlægja þær þegar hægt er,“ segir Guðríður Friðriksdóttir, sviðsstjóri Umhverfis- og mannvirkjasviðs. En það sé erfitt vera með slíkar aðgerðir í Kjarnaskógi yfir sumartímann þegar fjöldi fólks er í skóginum. Og það komi til greina að efla forvarnir gegn kanínum til að sporna við þessari miklu útbreiðslu. „Þannig að mér finnst það ekkert ólíklegt að við þurfum að gera eitthvað meira átak í þessum málum,“ segir Guðríður.