Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kalli Tomm - Oddaflug

Mynd:  / 

Kalli Tomm - Oddaflug

15.01.2019 - 11:00

Höfundar

Oddaflug er önnur sólóplata Kalla Tomm sem er kannski þekktastur fyrir að hafa lamið húðir í Gildrunni sem er líklega þekktasta sveit Mosfellinga. Oddaflug var hljóðrituð í stúdíó Paradís frá maí 2017 og fram í nóvember 2018. Upptökustjórn og hljóðblöndun var í höndum Ásmundar Jóhannssonar.

Kalli Tomm byrjaði að taka Oddaflug upp strax í kjölfarið á Örlagagaldri, fyrstu sólóplötu sinni sem kom út fyrir þremur árum. Örlagagaldur féll í afar góðan jarðveg bæði hjá hlustendum Rásar 2 og gagnrýnendum. 

Á Oddaflugi er einnig að finna hóp listamanna sem komu við sögu á Örlagagaldri og má þar nefna Tryggva Hubner, Jóhann Helgason, Guðmund Jónsson og upptökustjórann, Ásmund Jóhannsson.

Tengingin við Mosfellsbæ er líka sterk á plötunni en mæðgurnar Íris Hólm Jónsdóttir og Ingibjörg Hólm Einarsdóttir syngja bakraddir ásamt dóttur Kalla Tomm, Birnu Karls. Textahöfundar eru þrír og líka allir Mosfellingar; Bjarki Bjarnason, Hjördís Kvaran Einarsdóttir og kona Karls, Líney Ólafsdóttir.

Hönnun umslags og textabókar er einnig í höndum rótgróins Mosfellings, Péturs Fjalars Baldvinssonar.