Kallar eftir nákvæmari rannsókn á hreinkálfum

23.04.2019 - 09:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Fagráð um velferð dýra mælist til þess að afdrif hreinkálfa verði rannsökuð nákvæmar en hingað til. Ráðið beinir því til Umhverfisstofnunar að meta hvort þörf sé á því að breyta stjórnun hreindýraveiða til að tryggja velferð kálfanna.

Nokkur umræða hefur verið um það hvort rétt væri að seinka veiði á hreinkúm og lengja um leið tíma sem kálfar hafa með móður sinni. Fyrir tíu árum voru kálfarnir veiddir með móðurinni en því var hætt. Hræskráningar benda ekki til að fleiri kálfar drepist en áður og stofninn fer stækkandi. Fagráð um velferð dýra fjallaði um málið nýverið og bókaði að nauðsynlegt væri að gerðar verði rannsóknir á þroska og afdrifum kálfa. Umhverfisráðuneytið hefur þegar sett fé í auknar hreindýratalningar þar sem meðal annars er metið hve stór hluti kálfa drepst. Fagráðið kallar hins vegar eftir ítarlegri rannsókn þar sem borið er saman ástand kálfa eftir því hvort þeir fylgja móður eða ekki. Rannsóknirnar þurfi að ná yfir meirihluta búsvæða og taka til nokkurra ára svo draga megi ályktanir með viðurkenndum tölfræðilegum aðferðum.

Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir og formaður ráðsins, segir að þær upplýsingar sem nú liggi fyrir, dugi ekki til. Þær segi ekki til um hvort fyrirkomulag hreindýraveiða og feli í sér brot á lögum um velferð dýra. Sýna þurfi fram á hvaða ávinning kálfar hafi af því að fylgja móður til að hægt sé að taka afstöðu. Hún tekur þó fram að það að seinka upphafi veiða í þágu kálfa og stytta þannig veiðitímann geti líka haft óæskileg áhrif og aukið álag á hjarðirnar.

Fagráðið bendir á að í Noregi hefjist veiðar að jafnaði seinna en hér á landi. Þar er við þjálfun veiðimanna lögð áhersla á siðferði veiðanna, að fella ekki kú frá kálfi og að helst eigi að fella kálfinn á undan kúnni. Leiðsögumenn með hreindýraveiði hér á landi hafa bent á að þeir sem fara til veiða í upphafi veiðitíma sækist ekki að fella kýr með kálf heldur kjósi helst kálflausar geldkýr enda eru þær alla jafna vænni.

Það er umhverfisráðherra sem setur reglugerð um hreindýraveiðar og úr ráðuneytinu fengust þær upplýsingar að vinna við að skoða málið með umhverfisstofnun sé ekki hafin. Ekki sé hægt að svara því strax hvort ályktun fagráðsins eins og sér gefi tilefni til að breyta fyrirkomulagi næsta veiðitímabils eða hvort beðið verði þar til niðurstöður rannsókna liggja fyrir.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi