Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Kaldrananeshreppur: Vertu bless, sveitin mín

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Suðureyri súgandafjörður Suðureyri súgandafjörður
 Mynd: Jóhannes Jónsson Jóhannes Jó
Hvernig horfir framtíðin við sveitum landsins. Það er misjafnt eftir því hvar mann ber niður. Glötuð nettenging, slæmar samgöngur, aukin krafa um stærðarhagkvæmni, félagsleg einangrun, erfið nýliðun, ríkisjarðir sem fara í órækt og aldraðir bændur sem geta ekki hugsað sér að bregða búi. Þetta eru nokkur dæmi um vandamál sem plaga þær sveitir landsins sem standa höllum fæti. Samkvæmt upplýsingum frá Búnaðarmálastofu Matvælastofnunar er meðalaldur kúabænda á landsvísu 53 ár en sauðfjárbænda 56 ár.

Yngsti bóndinn í Kaldrananeshreppi á Ströndum er á förum, það verða þá þrír eftir. Á Barðaströnd komast nýliðar ekki að og sauðfjárbændur í Árneshreppi vilja helst ekki tala um horfurnar. Kúabúum fækkar í Húnaþingi Vestra. Í Ölfusi hefur kúabúskapur vikið nær alveg fyrir ferða- og hestamennsku, þar er ásókn í jarðir og engin deyfð yfir sveitinni þrátt fyrir að það sé bara eitt kúabú eftir. Í Skaftárhreppi fara ríkisjarðir í órækt. Nálægðin við þéttbýli hefur mikil áhrif á stöðu sveitanna en ræður þó ekki úrslitum í öllum tilvikum þannig er landbúnaður í Breiðdalshreppi í sókn og bændur bjartsýnir. 

Mynd með færslu
 Mynd: WIkimedia commons
Kaldrananeshreppur.

Íbúar Kaldrananesshrepps á Ströndum eru rétt rúmlega hundrað talsins. Íbúum fækkaði um 42% á árinum 1991 til 2006, unga fólkið er að mestu farið. Horfur fyrir byggðina á Drangsnesi eru stöðugar en sveitin stendur verr. 

Drangsnes strandir vestfirðir bæjir
 Mynd: Jóhannes Jónsson - ruv.is
Drangsnes strandir vestfirðir bæjir
 Mynd: Jóhannes Jónsson - ruv.is
Kaldrananeshreppur.

„Það finnst náttúrulega öllum þetta frekar sorglegt, hvað þetta er að fara mikið niður á við. Það munu allir sakna þess að hafa góðan hóp af rollum í firðinum á sumrin en þetta sýnist mér mun leggjast fljótt af hér í Kaldrananeshrepp, miðað við aldur á öðrum bændum. Fólk virðist ekki vera tilbúið að taka við.“

Segir Sölvi Þór Baldursson, hann býr ásamt móður sinni á bænum Odda í Bjarnarfirði í Kaldrananeshreppi. Alls er búið á fjórum bæjum í hreppnum. Sölvi er yngsti bóndinn, 34 ára. Hann hyggst bregða búi í haust og flytja til Reykjavíkur með kærustu sinni. Móðir hans ætlar að búa áfram á bænum og halda eftir nokkrum kindum. Sölvi hefði viljað búa áfram í Bjarnarfirði og kemur til með að sakna kyrrðarinnar en dæmið gengur ekki upp. Reksturinn gefur lítið í aðra hönd og flestir þurfa að vinna með. Sölvi á erfitt með það að ráða sig í aðra vinnu þar sem ekki er hægt að reiða sig á samgöngur yfir vetrarmánuðina, vegurinn út á Drangsnes er bara mokaður á mánudögum og miðvikudögum. 

„Maður hefur komist á Drangsnes í beitningu og svoleiðis, það hefur bjargað manni. Það er yfirleitt ekki eitthvað sem maður þarf að vera alveg fastur við.“

Drangsnes strandir vestfirðir bæjir Kaupfélag Matvöruverslun verslun búð sjoppa pósthús póstur
 Mynd: Jóhannes Jónsson - ruv.is
Á Drangsnesi.

Þegar Sölvi var að alast upp voru fleiri býli í sveitinni.  Það er aukin áhersla á stærðarhagkvæmni í landbúnaði en sauðfjárbændur í Kaldrananeshreppi hika við að stækka búin þrátt fyrir að nóg sé af túnum. Sölvi segir að fjárfestingin sé of áhættusöm, tekjur litlar og erfitt að selja jarðirnar. 

Það er fleira sem stendur í vegi fyrir því að Sölvi vilji búa áfram í firðinum. Nettengingin er slök og því erfitt að stunda háskólanám, þá er ekkert sjónvarp nema í gegnum gervihnött. Fámennið getur líka verið einangrandi.

„Það er alls ekki mikið af ungu fólki hérna, þó eitthvað á Drangsnesi en það eru 20 kílómetrar sem þarf að fara og ekkert oft fært um helgar þegar maður vill hitta einhverja eða lyfta sér aðeins upp. Flest fólkið sem býr hér í Bjarnarfirði er komið yfir sextugt.“

Sölvi telur að búskapur í hreppnum komi til með að leggjast af að mestu á næstu tíu árum. Þá verði þar bara sumarhús. Hann segir þó ýmsa möguleika á svæðinu. Mikið af heitu vatni bæði á Drangsnesi og í Bjarnarfirði sem hægt væri að nýta til fiskeldis eða annars. Þá bindur hann vonir við að nýr vegur sem unnið er að því að leggja í Bjarnarfirði styrki byggðina.

Mynd með færslu
 Mynd: Hagstofa Íslands
Þróun búsetu í strjálbýli, efri línan sýnir þróunina á strjálbýlum svæðum með færri en 200 íbúa og neðri línan sýnir þróunina á strjálbýlum svæðum með færri en 50 íbúa.

Sölvi tilheyrir þeim  6% landsmanna sem búa í strjálbýli, það er á svæðum þar sem íbúar eru færri en tvöhundruð talsins. Íbúum í strjálbýli hefur farið fækkandi síðastliðna áratugi. Árið 1991 voru strjálbýlingarnir 43 þúsund talsins en nú eru þeir 36 þúsund. Mest hefur fækkað á svæðum þar sem íbúar eru innan við 50 talsins. Í nýrri samnorrænni skýrslu um stöðu Norðurlandanna kemur fram að Ísland býr yfir ákveðinni sérstöðu, hvergi annars staðar á Norðurlöndum er hlutfall strjálbýlinga af heildaríbúafjölda jafnlágt og hér. Þannig býr fimmtungur Norðmanna í sveit og rúmlega einn af hverjum tíu Dönum.

Mynd með færslu
 Mynd: ruv

Finnur Ólafsson, oddviti í Kaldrananeshreppi, segist ekki sjá framtíð í sauðfjárrækt á svæðinu. Ferðamennskan sé hins vegar að koma sterk inn. Hann vill laða unga fólkið til baka en segir fjarskiptin standa í vegi fyrir því að það takist. Það að efla fjarskipti í hreppnum sé baráttumál númer eitt. 

„Fjarskiptamál er eitt stærsta byggðastefnumálið sem ætti að taka gríðarlega alvarlega í dag. Þetta verkefni sem hefur verið lagt af stað með hjá ríkisstjórninni, það hefur ekki ræst úr því eins og við vorum að vonast til.“

Á hann þar við átaksverkefnið Ísland ljóstengt og loforð forsætisráðherra um að árin 2015 til 2020 verði unnið að því að ljósleiðaravæða hvern dal og fjörð. Ekkert hefur þokast í fjarskiptamálunum í hreppnum. Árið 2000 var lögð hitaveita í Drangsnesi og þá var komið fyrir rörum fyrir ljósleiðara samhliða en þau hafa legið tóm síðan. Heildarfjárfestingin á landsvísu á að nema 6,5 milljarða en einungis voru settar 500 milljónir til málaflokksins á fjárlögum. Það segir Finnur langt frá því að vera nóg, með þessu áframhaldi komi ljósleiðaravæðing dreifbýlis til með að ganga svo hægt að það verði kominn tími á endurnýjun strax við verklok. 

Finnur er meðvitaður um að byggðaþróun í dreifbýli er víðast hvar neikvæð sama hvar í heiminum er borið niður en bendir á að annars staðar á Norðurlöndunum sé hlutfall íbúa í strjálbýli mun hærra en hér. Hann kallar eftir skýrari stefnumótun í byggðamálum af hálfu ríkisins.

„Ef við lítum yfir til Noregs þar sem þeir styðja gríðarlega mikið við nyrstu byggðirnar og önnur jaðarsvæði þá er þetta kannski það sem við höfum alltaf óskað eftir þegar við tölum um að við viljum byggðastefnu. Það er þá bara hvar þeir sjá fyrir sér að það verði búið á landinu og ef þeir ætla að halda landssvæðum í byggð eins og Árneshreppnum, nágrannasveitarfélaginu okkar, þá verða þeir að stuðla að því með einhverju, auknum samgöngum. Þetta sveitarfélag lokast af yfir veturinn sem er ekki fólkinu bjóðandi, hvernig á svo að reyna að byggja upp atvinnustarfsemi þegar þú þarft að búa við slíkt. Það myndi einfalda lífið gríðarlega mikið ef þeir ætla sér ekki að gera þetta og ætla að draga þetta á langinn að þeir myndu bara segja okkur það strax.“

Hann segir yfirfærslur málaflokka frá ríki til sveitarfélag hafa þrengt að sveitarfélögunum og gert það að verkum að þau geti ekki ráðist í nauðsynleg verkefni. Þá segir hann að Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði myndi stórbæta innviði samfélagsins yrði hún reist. Henni myndu fylgja samgönguumbætur, raforkuöryggi yrði fullnægjandi á Vestfjörðum og hægt að hefja iðnað sem krefst orku en væri jafnframt umhverfisvænn.

„Það hefur verið stefnt að því eins lengi og ég man eftir að Hvalárvirkjun verði gerð, það er ekkert að sjá að ríkið sé neytt að stuðla að því. Þetta eru meira einkaaðilar sem hafa verið að taka sig saman. Stofnað fyrirtæki á Ísafirði sem keypti part af jörðinni og er að reyna að fá virkjun og síðast þegar HS-orka fór inn í verkefnið. Þeir hafa fullan hug á að virkja en það eru ákveðnir hlutir sem ríkið hefur áhrif á. Það er ákveðið í lögum hvar tengimannvirki skulu vera og það þarf lagabreytingu til að koma upp tengimannvirki fyrir Hvalárvirkjun.“

 

Í Húnavatnssýslum hefur kúabúum fækkað gífurlega síðastliðin 15 ár og þau bú sem eftir eru hafa mörg stækkað. Um aldamótin voru fjörutíu bú, bara í austur sýslunni. Nú eru þau 48 í samtals. Sauðfjárbúum hefur fækkað líka en ekki jafn skarpt. Bændur eru að eldast. Nýliðun hefur verið einhver en ekki nægileg. Bændur eru að sögn Önnu Margrétar Jónsdóttur, ráðunautar, margir uggandi. Óvissa ríki um hvort nýr búvörusamningur leiði til tekjumissis fyrir bændur. Þá kalli ný reglugerð um aðbúnað í fjósum á breytingar en samkvæmt henni verður óheimilt að halda nautgripi í básafjósum frá og með byrjun árs 2035. 

„Sem þýðir að menn þurfa margir að fara í miklar framkvæmdir og kosta miklu til til þess að halda áfram í framleiðslu og stækka jafnvel í leiðinni. Þetta er mikil fjárfesting og menn eru uggandi yfir því hvort þeir ráði við það. Það fer eftir því hverjar afleiðingar nýju búvörusamninganna verða.“

Eitthvað er um að efnamenn að sunnan hafi keypt upp laxveiðijarðir í Húnaþingi Vestra. Oftast er slægjur þó nýttar. Anna Margrét segir bændur í Húnaþingi ekki vera í uppgjöf þó kúabúunum fækki sennilega áfram. Það komi hugsanlega eitthvað annað í staðinn. Nautaeldi eða aukin sauðfjárrækt. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - Ríkisútvarpið ohf
Barðaströnd.

Landbúnaður á Barðaströnd á undir högg að sækja að mati Ásgeirs Sveinssonar, formanns bæjarráðs Vesturbyggðar. Þar eru fimm mjólkurbú og 14 sauðfjárbú. Tveir bæir fóru í eyði síðastliðin tvö ár og sauðfjárbændurnir tveir á Rauðasandi drógu verulega saman seglin í fyrra. Ásgeir segir að ungir bændur í jarðaleit hafi haft samband við sig, áhugasamir um að kaupa jörð í sveitinni en hann hafi þurft að beina þeim annað. Þar sem þeir sem bregða búi séu tregir til að selja jarðirnar og sumarbústöðum fjölgi. Landið sé gott, samgöngur í lagi og ágætir nýliðunarstyrkir standi ungum bændum til boða hjá Byggðastofnun og Matvælastofnun. Átthagatryggð brottfluttra bænda sé helsta hindrunin. Vesturbyggð er í sókn, fólksfjölgun á bæði Patreksfirði og Bíldudal en horfurnar í sveitinni slæmar. Ásgeir óttast að býlum komi til með að fækka mjög næsta áratuginn en segir að það geti brugðið til beggja vona.

Mynd með færslu
 Mynd: Hannes Jóhannsson - RÚV
Meðalland.

Hótelin bjóða upp á lambakjöt

Skaftárhreppur tekur þátt í verkefni Byggðastofnunar sem snýr að brothættum byggðum. Í hreppnum búa um 460 manns, fólksfækkun hefur verið stöðug síðustu ár. Eirný Vals verkefnastjóri Brothættra byggða í hreppnum segir að einkum hafi verið unnið að því að samþætta undirstöðuatvinnugreinarnar tvær, sauðfjárbúskap og ferðamennsku. Flest hótel í hreppnum bjóði ferðamönnum nú upp á að gæða sér á lambakjöti frá bændum á svæðinu. Það vantar fleira fólk til að sinna ferðaþjónustu.  Meðalaldur bænda er hár en hefur farið lækkandi í kjölfar kynslóðaskipta. Eirný segir lánamöguleika ungra bænda nokkra og það auðveldi skiptin. Ýmsar hindranir eru þó í veginum. Algengt er að eldri bændur sitji lengi á búum, hugsanlega af tryggð við ættjörðina nú eða af ótta við að finna ekki aðra vinnu eða fara á lífeyri.

Ríkisjarðir úr ábúð og tún í órækt

Í fyrra fóru tvær ríkisjarðir úr ábúð og búskapur á fleiri ríkisjörðum kemur til með að leggjast af á þessu ári. Eirný segir að oft vilji afkomendur ábúenda taka við þessum jörðum en ríkið og reglurnar standi í vegi fyrir því. Þegar búskapur á jörðunum leggst af er bústofninn seldur annað og vélarnar sömuleiðis. Næstu ábúendur koma að tómum kofanum. Jarðirnar standa jafnan auðar í ár áður en þær eru auglýstar og þá eru girðingar og tún oft farin að láta á sjá að sögn Eirnýjar.  Meðallandið, austast í hreppnum, stendur að hennar mati verst en byggð í Álftaveri, vestast er að styrkjast og þar hefur ungu fólki verið að fjölga.

Þriggja fasa rafmagn og fjarskipti

Hún segi mikilvægt að fá þriggja fasa rafmagn sem víðast svo hægt sé að setja upp maltaþjóna í fjósum. Nettenginguna þurfi líka að bæta, stopul 3g nettenging dugi ekki til. Bændur geti í dag lesið heila bók á meðan þeir bíða eftir því að skrá hitt og þetta í hin ýmsu netvæddu skráningarkerfi.  Þessir tveir þættir standi mjög í vegi fyrir nýliðun í sveitinni. Svo segir hún vetrarþjónustu vegagerðarinnar afleita. Sveitarstjórnin vinnur að því að fá ljósleiðara en það vantar fjármagn, byggðin er dreifð og sveitarfélagið landmikið. Eirný bindur vonir við að ríkið leggi meira af mörkum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Dreifikerfi
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson
Breiðdalshreppur.

Í brothættu byggðinni Breiðdalshreppi er bjartsýni ríkjandi þrátt fyrir einangrun og dagbundið netleysi. Þar hefur íbúum fjölgað lítillega síðustu mánuði. Þeir eru um 190 talsins. Tvö nýbýli hafa bæst við á síðustu fimm árum og ný kynslóð tekið við á tveimur bæjum. Guðný Harðardóttir, ráðunautur, tók við ríkisjörð í sveitinni fyrir þremur árum, hún er með 200 fjár og hyggst stækka við sig á næstunni. 

„Ég er full bjartsýni og það eru fleiri ungar fjölskyldur með búskap hérna. Það er bara að fá fleira fólk hingað. 

Hún segir verkefni Byggðastofnunar hugsanlega hafa haft áhrif. 

„Það byrjaði þetta verkefni hjá Byggðastofnun, Brothættar byggðir og uppfrá því eða kannski ekki beint upp frá því en það fóru að flytja ungar fjölskyldur á svæðið. Ég held þetta séu kannski svolítil snjóboltaáhrif. Um leið og það eru komnar kannski tvær fjölskyldur fer að verða fýsilegra fyrir aðrar barnafjölskyldur að koma á svæðið.“

Þó horfurnar í Breiðdalshreppi virðist betri en í Kaldrananeshreppi á Ströndum glíma byggðirnar við sama samgöngu- og fjarskiptavandann. Það var internetslaust á skrifstofu Breiðdalshrepps í dag. Samgöngurnar upp á hérað eru erfiðar, vegurinn yfir Breiðdalsheiði hefur verið lokaður frá því í desember. Sveitarstjórnin vinnur að umbótum í fjarskiptamálum. Guðný segir engar svæðisbundnar hindranir mæta ungum bændum í Breiðdalshreppi. Þær séu þær sömu og annars staðar á landinu, fjármögnun, fyrst og fremst. Það sé eitt af markmiðum nýrra búvörusamninga að auðvelda nýliðun, hún vonar að það gangi eftir. 

Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV