Kaldastríðsvindar blása um Ísland

18.05.2016 - 22:18
epa04386477 A Canadian McDonnell Douglas CF-18 Hornet fighter jet (C) and two US McDonnell Douglas F-15 Eagle jets fly over the venue of the NATO summit in Newport, Wales, 05 September 2014. World leaders from about 60 countries gathered for a two-day
 Mynd: EPA - DPA
Íslendingar geta vænst aukinna hernaðarumsvifa við landið vegna vaxandi spennu í samskiptum Rússlands og Vesturveldanna, að mati bandarísks sérfræðings í alþjóðamálum. Fátt bendi þó til að Bandaríkjaher sækist eftir varanlegri aðstöðu á Íslandi á ný.

Aldarfjórðungur er síðan kalda stríðinu lauk og áratugur er síðan bandarísk stjórnvöld lokuðu herstöðinni á Keflavíkurflugvelli. En sagan virðist stundum fara í hringi. Ástandið í alþjóðamálum minnir um margt á gamla tíma.

Rússar hafa stóraukið hernaðarumsvif sín á undanförnum árum, ekki síst á norðurslóðum þar sem umferð rússneskra sprengjuflugvéla og kafbáta hefur ekki verið meiri síðan á tímum kalda stríðsins. Á sama tíma hyggjast bandarísk stjórnvöld fjórfalda framflög til varnarmála í Evrópu vegna vaxandi ógnar af Rússum.

Heather Conley, sérfræðingur hjá Center for Strategic and International Studies í Washington, segir að ástandið sé afar viðkvæmt vegna þess hve óútreiknanlegir Rússar séu. „Þegar rússneskar flugvélar fljúga innan við tíu metra frá bandarískum skipum og haga sér dólgslega í námunda við bandarískar flugvélar þá geta orðið slys, þeir gætu misreiknað sig,“ sagði Conley í viðtali við fréttamann RÚV í Washington.

Hún bætti því við að tryggja yrði gegnsæi og fyrirsjáanleika í samskiptunum. „En á meðan óstöðugleikinn vex verður NATO að sýna skýrt fram á trúverðugt mótvægi. Það gerir bandalagið nú.“

Hluta af þessum auknu fjármunum verður meðal annars varið til að bæta aðstöðu fyrir kafbátaleitarvélar á Keflavíkurflugvelli. Conley segir að eftirlit slíkra flugvéla sé nauðsynlegt til að átta sig betur á hvað vakir fyrir rússneskum hermálayfirvöldum. „Það má því búast við auknum umsvifum Bandaríkjanna í Keflavík. Ég tel að það efli sjálfstraustið að meðlimir NATO njóti verndar og tryggi að við skiljum hvað Rússar með hernaðaraðgerðum sínum séu að gera, til að tryggja að ekki komi til misskilnings.“

Conley á þó síður von á að Bandaríkjaher sækist eftir varanlegri aðstöðu á Keflavíkurflugvelli, flugsveitir komi í staðinn hingað með reglulegu millibili og dvelji hér um skeið.

sveinnhg's picture
Sveinn H. Guðmarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi