Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Kal í túnum í Eyjafirði

23.05.2013 - 08:59
Mynd með færslu
 Mynd:
Allt að 80 prósent túna eru kalin á fjölda bæja í Eyjafirði. Þetta segir Ingvar Björnsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, í Bændablaðinu í dag.

Þótt vorið sé komið eru grundirnar ekki allsstaðar farnar að gróa. Eftir langan og snjóþungan vetur blasa nú kalin tún við bændum. Ástandið er misjafnt eftir sveitum en á mörgum bæjum, allt frá Skagafirði austur á Hérað, er staðan slæm. Starfsmenn ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins voru á ferð í Hörgárdal og Öxnadal í dag að meta kalskemmdir. 

Ingvar telur að ekki hafi kalið jafn illa í Eyjafirði frá því á kalárunum um 1970. Þetta sé ekki komið í ljós alls staðar en kalið sé verulegt víða í Hörgárdal og Öxnadal, en minna inni í Eyjafirði.

Þá býst hann við að það geti orðið mikið kal á Árskógsströnd og að auki eitthvað í Svarfaðardal. Ingvar segir bændur þegar farna að bregðast við þessu, meðal annars með því að kaupa hey.

Þorsteini Rútssyni, bónda á Þverá í Öxnadal, líst ekki á blikuna. Þar byrjuðu að myndast svell á túnum í nóvember sem tók ekki upp fyrr en nú fyrir skemmstu.

„Það virðist vera að allt sem endurræktað hefur verið á síðustu fjórum til fimm árum sé ónýtt og svo er ekki alveg komið í ljós með eldri túnin því það er enn snjór á þeim sumsstaðar. Ég er nú búinn að vera hérna í 40 ár við búskap og þetta hef ég aldrei séð áður".

Framundan er mikil vinna við endurræktun og þar getur kostnaðurinn hlaupið á milljónum. Margir eru byrjaðir að vinna upp tún en víða er jörð enn of blaut. Og tíminn vinnur ekki með bændum því langt er liðið á vorið. 

„Og svo er það sem maður hefur kannski mestar áhyggjur af núna það er það að það verði bara einn sláttur mjög víða hérna á Norðurlandi. Þetta er nefnilega á svo stóru landsvæði þetta vandamál núna með þennan væntanlega uppskerubrest", segir Þorsteinn.