Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kæruleysislega „artí“ og írónísk stemmning

Mynd:  / 

Kæruleysislega „artí“ og írónísk stemmning

20.03.2019 - 17:18

Höfundar

Taka 5 fjallar um ferlið við það að taka upp kvikmynd og hið sadíska vald leikstjórans, en þegar öll kurl koma til grafar hafa leikararnir sjálfir valið sér hlutskipti sitt, segir kvikmyndarýnir Lestarinnar.

Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:

Taka 5 er ný íslensk kvikmynd eftir Magnús Jónsson sem skrifar, leikstýrir og framleiðir myndina sjálfur. Taka 5 er merkileg fyrir þær sakir að hún er gerð án nokkurs utanaðkomandi fjármagns og þetta er einnig fyrsta íslenska kvikmyndin í fullri lengd sem er tekin upp af konu, Hrund Atladóttur.

Taka 5 er kolsvört gamanmynd sem fjallar um einbúann herra R sem lifir og hrærist í draumaheimi kvikmyndanna á einmanalegum sveitabæ sínum, hans stærsti draumur er að gera sína eigin kvikmynd. Til þess að svo megi verða gerir hann sér lítið fyrir og rænir hópi hæfileikafólks, tónlistarmanni, leikstjóra og leikkonu þeirra á meðal, læsir þau inni, setur á þau ökklabönd sem gefur rafstuð og kemur í veg fyrir að þau geti flúið. Þar með upphefst æsileg atburðarás þar sem vitleysisgangur en líka vangaveltur um eðli og tilgang tungumálsins og leiklistarinnar eiga sér stað.

Með aðalhlutverk í myndinna fara Hilmir Jensson sem leikur herra R og Þóra Karítas Árnadóttir, Halldór Gylfason, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Margrét Kristín Sigurðardóttir og Ólafur Ásgeirsson sem mynda hópinn ógæfusama sem situr í haldi hins klikkaða herra R sem tjáir sig mestmegnis í tilvitnunum úr gömlum Hollywood kvikmyndum sem hafa mótað heimssýn hans.

Taka 5 er nokkuð hefðbundin spunasviðsetning – hvað gerist þegar 5 persónur eru lokaðar inni í rými og skipað að búa til kvikmynd saman? Forsendurnar eru vitaskuld nokkuð lygilegar og plottið nokkuð langsótt en tilgangurinn hér er ekki endilega að gera stórbrotið listaverk heldur er þetta áhugaverð tilraun í kvikmyndagerð og afraksturinn er bara nokkuð trúverðugur.

Mynd með færslu
 Mynd:

Taka 5 sýnir að það er hægt að gera frambærilega kvikmynd fyrir mjög lítinn pening en gæði myndarinnar komu mér skemmtilega á óvart, þrátt fyrir nokkuð losaralegan brag á söguþræðinum, hvort sem um kvikmyndina innan kvikmyndarinnar er að ræða eða kvikmyndina sjálfa, og á köflum ansi ýktan leik, þá skiptir það ekki svo miklu máli og ýkti leikurinn er eflaust meðvitað stílbragð. Myndin heldur dampi og góðu flæði þrátt fyrir að mér hafi þótt hún eilítið langdregin á köflum, húmorinn í myndinni var ekki alveg nógu vel þróaður og fínpússaður að mínu mati þótt inn á milli hafi verið góðir sprettir þar sem ég skellti upp úr.

Myndatakan, sviðmynd og búningar voru til fyrirmyndar. Myndheimurinn er brotinn upp með klippum úr kvikmyndinni sem er verið að gera innan kvikmyndarinnar á gamla VHS upptökuvél sem gerir myndina enn frekar kæruleysislega artí og á vel við þá írónísku stemmningu sem ríkir. Taka 5 fjallar í raun um hvað það er að gera kvikmynd og hið sadíska vald leikstjórans, en þegar öll kurl koma til grafar þá hafa leikararnir á endanum sjálfir valið sér hlutskipti sitt.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Áhrifamikill sálfræðitryllir frá Suður-Kóreu

Kvikmyndir

Að verðlauna hvíta bjargvættinn er tímaskekkja

Kvikmyndir

Bardagaengill með milt hjarta undir brynju

Kvikmyndir

Hversdagsleiki illskunnar í Vice