Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Kærkomnar samgöngubætur

08.07.2015 - 19:30
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv.is - Skjaskot
Samgöngubætur sem fylgja fyrirhugaðri Hvammsvirkjun í Þjórsá eru kærkomnar, segir sveitarstjóri Rangárþings ytra. Óska á eftir áliti frá Skipulagsstofnun á því hvort meta þurfi umhverfisáhrif að nýju.

Skiltið sem markar hæð lóns vegna Hvammsvirkjunar var rekið niður árið 2007. Nú átta árum síðar, ákvað Alþingi að færa þennan vikjunarkost í Þjórsá í nýtingarflokk rammaáætlunar.

Örfáum dögum eftir að það var samþykkt eru fulltrúar Landsvirkjunar komnir á fund hjá sveitarstjórum og oddvitum Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Umhverfismat vegna virkjunarinnar er komið til ára sinna og það þarf að fá úr því skorið hvort það þurfi að meta umhverfisáhrif að nýju. Sveitarfélögin þurfa að óska eftir því við Skipulagsstofnun, fyrr geta þau ekki gefið út framkvæmdaleyfi. Gangi áform Landsvirkjunar eftir verður Hvammsvirkjun gangsett árið 2019.

„Þetta mun þýða auðvitað heilmikil umsvif hér í ákveðinn tíma en síðan eru einnig samgöngubætur sem fólk hefur séð kosti við. Það kemur sem sé brú yfir Þjórsá sem fylgir þessu og er í rauninni fyrsta skrefið eftir því sem að áætlanir Landsvirkjunar ganga út á,“ segir Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri í Rangárþingi ytra.

Hann segir að undirbúningur fyrir vegalagningu og brúargerð gæti hafist í lok ársins: „Og það er svo sannarlega kærkomið, hérna viljum við gjarnan tengja þessar sveitir saman, svo að það sé nú bara nefnt.“