Kærkomin úrkoma í Ástralíu

16.01.2020 - 06:50
epa08129211 A general view as storm clouds form during an Australian Open practise session at Melbourne Park in Melbourne, Australia, 15 January 2020. The Australian Open will take place from 20 January to 02 February 2020.  EPA-EFE/MICHAEL DODGE EDITORIAL USE ONLY AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Langþráð úrkoma helltist yfir austurhluta Ástralíu í morgun, og frekari úrkoma er í kortunum. Rigningin er kærkomin í baráttunni við ógurlega gróðurelda í Nýja Suður-Wales og Viktoríu. Veðurstofan í Nýja Suður-Wales segir talsverða úrkomu hafa fallið á eldana á nokkrum stöðum í ríkinu.

Slökkviliðið í fylkinu sagði regnið eiga eftir að veita mikla hjálp við að ná tökum á eldsvoðum, þó það eigi ekki eftir að slökkva í öllum eldum. Þá geta slökkviliðsmenn loks hvílt sig örlítið í baráttu sinni við eldana. 

Áður en úrkoman hófst loguðu 30 eldar stjórnlaust í Nýja Suður-Wales. Reykur frá gróðureldunum lagðist yfir Melbourne í Viktoríufylki í byrjun vikunnar, en þrumuveður feykti honum burt seint í gær. Áfram er búist við talsverðri úrkomu á morgun og inn í helgina. Það yrði þá lengsta samfellda úrkomutímabil í fylkjunum síðan eldarnir byrjuðu að loga í september í fyrra.

Slökkviliðið í Nýja Suður-Wales fer ekki í grafgötur með hversu ánægðir menn þar á bæ eru með að fá loks aðstoð af himnum ofan. „Ef allt fer að óskum verður þetta eins og að fá jóla-, afmælis-, trúlofunar-, brúðkaupsafmælis- og útskriftargjöf í einni og sömu gjöfinni," sögðu yfirmenn slökkviliðsins fyrr í vikunni þegar veðurspáin var gefin út.

28 manns hafa látið lífið og talið er að um milljarður dýra hafi drepist í gróðureldunum. Eldarnir hafa brunnið yfir landsvæði sem er á stærð við allt Ísland.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi