Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kærkomin bók sem allir ættu að lesa

Mynd: EFA / EPA

Kærkomin bók sem allir ættu að lesa

09.11.2016 - 16:12

Höfundar

Ör, eftir Auði Övu Ólafsdóttur, er kærkomin skáldsaga sem ber sterk einkenni höfundar segir Vera Knútsdóttir, gagnrýnandi Viðsjár. „Hún er listilega vel skrifuð, áferðarfalleg og djúpvitur, og tekur á málefnum sem höfða til samvisku lesandans.“

Vera Knútsdóttir skrifar:
Nýjasta skáldsaga Auðar Övu Ólafsdóttur, Ör, er hennar beittasta saga til þessa. Þrátt fyrir að hún geymi höfundareinkenni sem lesendur þekkja úr fyrri verkum, eins og blæbrigðaríkar og myndrænar lýsingar, skemmtilegar og dálítið furðulegar persónur, og skarpan húmor – kveður einnig við nýjan tón, sem gefur til kynna að höfundi liggi mikið á hjarta. Verkið veltir ennfremur upp álitnum siðferðilegum spurningum um gildi mannlífsins, annars vegar hér á okkar slóðum í norðri eða vestri, eftir því hvernig á það er litið, og hinsvegar á öðrum stríðshrjáðari slóðum.

Ör skiptist í tvo hluta sem endurspegla tvo heima. Í fyrri hluta sögunnar kynnumst við söguhetjunni Jónasi Ebeneser sem er jafnframt vitundamiðja sögunnar. Jónas er að því virðist afar venjulegur maður á miðjum aldri, fráskilinn faðir sem er þar að auki sérlega handlaginn, en óhamingjusamur og hefur hug á því að binda enda á líf sitt. Jónas er dulur í samskiptum við sína nánustu en lesendur eru þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að fylgjast með frjóu hugsanaflæði hans og innra samtali. Í kringum Jónas er ríkulegt persónugallerí sem minnir á að sögurpersónur höfundar eru yfirleitt allt annað en dæmigerðar. Móðir Jónasar, Guðrún, er orðin fjörgömul kona og komin á elliheimili. Hún er fyrrverandi stærðfræðikennari og orgelleikari, og hefur mikinn áhuga á stríðum veraldar og þá sérstaklega seinni heimstyrjöldinni. Hún er yfirleitt óðamála þegar Jónas kemur í heimsókn, en vegna elliglapa talar hún samhengislaust um stríð og stríðsherra eins og Napóleón, um stærðfræðidæmi og tölur, en einnig um minningar af aðalsöguhetjunni sem barni.

Vinur og nágranni Jónasar, Svanur, er skotveiðimaður og hefur tvö áhugasvið; vélknúin farartæki og bága stöðu kvenna víðsvegar um heiminn. Þá fá lesendur einnig veður af fyrrverandi eiginkonu Jónasar, sem heitir Guðrún rétt eins og móðirin, og af dóttur hans sem einnig heitir Guðrún, en ber millinafnið Vatnalilja, og er sérfræðingur í vistkerfi úthafanna.

Nöfn eru yfirleitt táknræn í skáldsögum. Þau geta til dæmis vísað í þau örlög sem bíða söguhetjanna eða endurspeglað persónugerð þeirra - hverskonar erkitýpa persónan er. Höfundur er vel meðvituð um skáldskaparlegt gildi nafna og bregður hér á leik með þá hugmynd. Móðir söguhetjunnar segir, þegar hún kynnir Jónas Ebeneser fyrir einum starfsmanni elliheimilisins, að hún hafi valið nafnið hans því Jónas merki dúfa og Ebeneser hinn hjálpsami. Ekki veit ég í hvaða merkingarheim móðirin vísar þegar hún heldur því fram, en með þessu sáir höfundur fræjum, sem svo spíra þegar líður á frásögnina – en í seinni hluta sögunnar koma bæði dúfa og hjálpsemi við sögu og lita örlög söguhetjunnar.

Eins og áður sagði er Jónas ákveðinn í að stytta sér aldur en færist verkið illa úr hendi. Hann veltir fyrir sér mögulegum aðferðum til þess og leitar hugmynda til rithöfunda á borð við Ernest Hemingway og Virginiu Woolf. Sú bókmenntalega tenging minnir á þær fjöldamörgu sögur bókmenntahefðarinnar sem fást við þunglyndi, melankólíu og sjálfsmorðshugleiðingar. Það sem virðist aftur á móti aftra Jónasi eru áhyggjur af þeim sem eftir lifa. Og til að koma í veg fyrir að það verði dóttir hans sem komi að honum látnum, ákveður hann að leggja land undir fót og taka sitt eigið líf erlendis.

Í seinni hlutanum fylgir lesandi Jónasi til framandi lands sem er niðurbrotið og í rúst eftir áralangar styrjaldir. Við það umbreytist sagan algjörlega og slær á strengi sem koma við siðferðisvitund lesandans og réttsýni. Í landi þar sem nú ríkir vopnahlé eftir blóðug átök, loftárásir, voðaverk og ofbeldi, verða fyrirheit Jónasar, að taka eigið líf, hálffáránleg, og að einhverskonar lúxusvandamáli, mitt í samfélagi þar sem dauði og missir eru daglegt brauð. Jónas dvelur á hóteli sem virðist yfirgefið. Ásamt honum dvelja þar aðeins þrír gestir, tveir starfsmenn hótelsins sem eru systkini, og ungur sonur systurinnar. Rústir, ryk og myrkur einkenna umhverfið, jarðsprengjur hvíla í jörðinni kringum hótelið, rafmagni og vatni er skammtað, og á kvöldin ríkir útgöngubann. Starfsfólk hótelsins, ásamt gestunum, eru því auðskiljanlega tortryggnir gagnvart Jónasi þegar hann segist vera kominn á þennan guðsvolaða stað í frí.

Áhugamál móðurinnar og Svans í fyrri hlutanum, um annarsvegar stríð og hinsvegar kúgun kvenna, undirbúa frásögnina um stríðshrjáða landið í seinni hlutanum. Þau ennfremur endurspegla hvernig aðstæður þeirra sem búa í stríðshrjáðum löndum blasa við íbúum sem búa á friðsælari stöðum í heiminum; hvernig átakanlegur hversdagsleiki og blóðsúthellingar snerta þá sem búa í öruggri fjarlægð við þær – eða réttara sagt hvernig slík átök snerta þá ekki. Með umfjölluninni um stríð og ofbeldi gegn almennum borgurum í fyrri hluta sögunnar, og með því að færa sögusviðið til stríðshrjáðs lands, þar sem aðalsögupersónan hittir fyrir persónur sem hafa upplifað ömurleik stríðs á eigin skinni, og hlýðir á þær segja frá því, beinir höfundur sjónum lesandans að þeim nöturlega veruleik sem fólk annarstaðar í heiminum býr við. Og á meðan það er val Jónasar að leggjast í ferðalög, er það nauðung margra milljóna flóttamanna í heiminum í dag. Og á meðan hans bíður hótel, og gestgjafar sem taka honum opnum örmum, mæta flestir flóttamenn lokuðum dyrum og skilningsleysi.

Matur og eldamennska gegna mikilvægu hlutverki í verkum Auðar Övu, en einhvern tíma heyrði ég höfund lýsa því yfir að það væri nauðsynlegt að hlúa að sögupersónum sínum og gefa þeim að borða. Með Rigningu í Nóvember, sem kom út árið 2004, fylgdi lítil uppskriftabók með uppskriftum að réttunum sem komu við sögu í skáldsögunni. Þá muna lesendur eflaust eftir því þegar sögupersónan í Afleggjaranum fær að smakka ýmiskonar góðgæti sem finna má í skógum sunnarlega á meginlandi í Evrópu. Í Ör má finna matarsenu með svipuðu sniði, en hér nálgast höfundur mat með allt öðrum hætti en áður og í ljósi þeirra takmarkana sem sögusviðið setur mat, eldamennsku og almennum kræsingum. Sögumaður kemur inn á veitingahús í stríðshrjáða landinu og hefur um aðeins einn rétt að velja, rétt hússins, sem reynist matreiddur úr hráefni nærumhverfisins. Hér er þó ekki um að ræða áherslur sem tengja má við nýja-norræna eldhúsið, heldur kemur hráefnið úr bakgarði veitingahússins, og úr því sem legst til. Það er einfaldlega of flókið og hættulegt að nálgast það hráefni sem annars stæði til boða.

Ég fagna því að Auður Ava Ólafsdóttir skuli beita skáldskaparhæfileikum sínum til að vekja lesendur til umhugsunar og gera tilraun til að hafa áhrif á sýn þeirra á umheiminn og viðhorf  til þess ömurlega ástands, sem stór hluti samtímamanna okkar búa við. Ör er því kærkomin skáldsaga sem ber sterk höfundareinkenni Auðar Övu, er listilega vel skrifuð, áferðarfalleg og djúpvitur, og tekur á málefnum sem höfða til samvisku lesandans, og minnir á að við getum ekki litið lengur í aðra átt. Ör er saga sem allir ættu að lesa – ekki síst Alþingismenn og þeir sem gera sig líklega til að taka við lyklum að ráðuneytum á komandi dögum.