Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Kærir kosningar í Reykjavík

Mynd með færslu
 Mynd:
Lögmaður hefur kært sveitarstjórnarkosningar í Reykjavík til sýslumannsins í Reykjavík á grundvelli þess að yfirkjörstjórn hafi verið skipuð en ekki kosin eins og lög segja til um.

Í kærunni er farið fram á að yfirkjörstjórn verði leyst frá störfum, öllum greiddum atkvæðum eytt og kosning hafin á nýjan leik. Utankjörfundarkosning hófst 5. apríl síðastliðinn. 

Í lögum um kosningar til sveitarstjórna segir að yfirkjörstjórn skuli kosin á fyrsta fundi nýkjörinnar sveitarstjórnar til fjögurra ára í senn. Fundargerðir borgarstjórnar eru aðgengilegar á vefnum reykjavik.is. Í fyrstu fundargerð nýkjörinnar borgarstjórnar í Reykjavík 15. júní 2010, er hins vegar ekkert um kosningu nýrrar yfirkjörstjórnar.

Hins vegar segir, í fundargerð borgarstjórnar frá 15. október á síðasta ári, að borgarstjórn hafi samþykkt að skipa þau Tómas Hrafn Sveinsson, Kristínu Edwald og Katrínu Theódórsdóttur í yfirkjörstjórn vegna borgarstjórnarkosninga 31. maí næstkomandi. Í lögunum segir jafnframt að kjörstjórnir séu sjálfstæðar í störfum sínum og óháðar ákvörðunarvaldi sveitarstjórnar, því skipti miklu máli að hún sé kosin en ekki skipuð. 

[email protected].