Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Kærir Iceland Express fyrir njósnir

04.07.2012 - 12:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Flugfélagið Iceland Express hefur viðurkennt að hafa stundað hleranir í þeim tilgangi að afla sér upplýsinga um fjölda farþega flugfélagsins WOW Air. Málið hefur verið kært til lögreglu.

Þann 18. júní bárust WOW Air upplýsingar um það frá starfsmanni Isavia að starfsmenn Iceland Express stunduðu hleranir á svokallaðri Tetra rás sem WOW notar. Taldi starfsmaður Isavia að hleranirnar hefðu staðið í nokkurn tíma. Í kæru sem WOW hefur sent lögreglu vegna málsins segir að starfsmaður Iceland Express hafi viðurkennt að tilgangur hlerananna hafi verið að afla upplýsinga um farþegatölur og annað sem snýr að starfsemi WOW. Þær upplýsingar væru svo sendar beint til aðaleiganda og stjórnarformanns Iceland Express, Pálma Haraldssonar. Þykir WOW þetta benda til þess að Pálmi hafi gefið starfsmönnum sínum fyrirmæli um hleranirnar.

Telur WOW að með þessu hafi Iceland Express brotið gróflega gegn hagsmunum og réttindum WOW. Fyrirtækið sé augljóslega að afla sér upplýsinga um atvinnuleyndarmál. Sé það sérstaklega ófyrirleitið í ljósi þess að WOW hafi nýverið hafið samkeppni við Iceland Express. Þá telur WOW að hleranirnar standi enn yfir. Segir í kærunni að brotin séu talin varða við almenn hegningarlög um fjarskipti og lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Er þess því farið á leit við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, að hún hefji þegar opinbera rannsókn á málinu.

Baldur Oddur Baldursson forstjóri WOW vildi frekar lítið tjá sig um málið þegar leitað var eftir því í morgun. „Nú er málið í höndum lögreglu og á meðan svo er höfum við lítið með málið að gera og munum ekki tjá okkur um efnisatriði málsins heldur leyfa þessu að fara sinn eðlilega farveg í rannsókn lögreglu,“ segir Baldur. Ekki náðist í Skarphéðinn Berg Steinarsson, forstjóra Iceland Express, við vinnslu fréttarinnar.