Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Kærir borgina fyrir brot gegn stjórnarskrá

21.11.2013 - 12:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Forsætisnefnd Alþingis hefur kært ákvörðun Reykjavíkurborgar - að samþykkja deiliskipulag við Landsímareit í Kvosinni - til úrskurðarnefndar umhverfis-og auðlindamála. Alþingi telur að með ákvörðun sinni hafi Reykjavíkurborg sýnt þjóðþingi Íslendinga og sögu landsins vanvirðingu.

Í kæru Alþingis er Reykjavíkurborg meðal annars sögð brjóta gegn 36. grein stjórnarskrárinnar þar sem segir að Alþingi sé friðheilagt og að enginn megi raska friði þess né frelsi. Forsætisnefnd Alþingis segir að Reykjavíkurborg hafi borið að rannsaka þarfir og kröfur þingsins og hafa samráð við það þegar ákvörðun um deiliskipulagið var tekin.

Ekkert slíkt hafi verið gert, athugasemdir Alþingis hafi verið virtar að vettugi og ekkert gert til að koma til móts við sjónarmið þess. Með þeirri háttsemi telur Alþingi að borgin hafi sýnt menningarminjum, þjóðþingi Íslendinga og sögu landsins vanvirðingu og brotið gegn stjórnarskránni

Í kærunni er Reykjavíkurborg einng sögð reyna að leyna raunverulegum áformum sínum um byggingu á reitnum. Í deiliskipulaginu segi eingöngu að ef um hótelstarfsemi sé að ræða á reitnum eigi aðalinngangur þess að vera frá Kirkjustræti. „Áform Reykjavíkurborgar eru skýr og augljós - byggja á hótel í Landsímahúsunum með tengingu við nýbyggingu að Kirkjustræti," segir í kæru Alþingis.  Deiliskipulagið sé því ófyrirsjáanlegt og tryggi ekki réttaröryggi borgaranna

Alþingi telur enn fremur að afmörkun Reykjavíkurborgar á umræddu deiliskipulagssvæði byggi hvorki á málefnalegum né skipulagsrökum. Hagsmunir eins manns - Péturs Þórs Sigurðssonar, eiganda Landsímahússins - hafi ráðið því að ákveðið var að deiluskipuleggja Landsímareitinn sérstaklega. Engin rök sé færð fyrir því að afmarka Landsímareitinn sérstaklega sem deiliskipulagssvæði.

Þá segir Alþingi að ekkert umhverfismat hafi farið fram og engin rannsókn hafi verið gerð á skuggavarpi deiliskipulagsins. Forsætisnefnd Alþingis telur jafnframt að umferðar - og öryggismál hafi ekki verið skoðuð - slíkt sé ámælisvert af hálfu Reykjavíkurborgar. 

[email protected]