Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kærðu bæði gæsluvarðhald í „húsbílamálinu“

Mynd: Rúv.is / skjáskot
Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness yfir hollensku pari sem var handtekið á Seyðisfirði með mikið magn fíkniefna. Þau fundust í húsbíl sem parið hafði tekið á leigu og voru falin í 14 niðursuðudósum, varadekki bílsins og tveimur gaskútum.

Bæði maðurinn og konan kærðu úrskurðinn til Hæstaréttar sem staðfesti hann í dag. Parið kom með Norrænu og fundust fíkniefnin við úrtaksleit.  

Athygli vekur að í greinargerð lögreglustjórans á Austurlandi nú er ekki lengur að finna upplýsingar um magn fíkniefnanna sem parið er grunað um að hafa ætlað að smygla. Eingöngu er sagt að parið sé grunað um „mjög stórfelldan innflutning á fíkniefnum“ og að „gríðarlegt magn af MDMA eða Extacy“ hafi fundist í bílnum.

Þegar Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurðinn yfir konunni um miðjan mánuðinn kom fram að lögreglan á Austurlandi teldi parið hafa reynt að smygla 81,2 kílóum af MDMA-efnum.

Parinu er gert að sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 7. október og einangrun á meðan á því stendur. Bæði maðurinn og konan eru á Litla Hrauni.

TÍMALÍNA
09:00 - Norræna kemur að landi í Seyðisfirði
10:00 - Tollverðir taka húsbíl hollenska parsins í úrtaksleit.
13:25 - Grunur vaknar um að fíkniefni séu falin í bílnum og hollenska konan því handtekin
13:30 - hollenski maðurinn handtekinn skömmu seinna.

 

Maðurinn krafðist þess að gæsluvarðhald yrði fellt úr gildi en til vara að því yrði markaður skemmri tími og kröfu um einangrun yrði hafnað. Hann hefur játað að hafa vitað af fíkniefnunum í bílnum.

Konan krafðist þess að gæsluvarðhaldið yrði fellt úr gildi en til vara að farbanni yrði beitt. Hún neitar að hafa haft nokkra vitneskju um efnin og hefur maðurinn einnig fullyrt að hún hafi ekkert vitað.

Fram kemur í greinargerð lögreglustjórans á Austurlandi að farin sé af stað umfangsmikil rannsókn sem teygi sig til annarra landa. Hún taki tíma og telur lögreglan að sér veiti ekki af fjórum vikum til viðbótar. Héraðsdómur ákvað að tveggja vikna gæsluvarðhald væri nóg og staðfesti Hæstiréttur þann úrskurð.