Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kærðar fyrir rangar sakargiftir

10.11.2015 - 09:44
Mynd: Hæpið / RÚV
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður annars mannsins sem hefur verið kærður fyrir kynferðisbrot, hefur kært konurnar tvær fyrir rangar sakargiftir. Umrætt mál vakti hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum í gær undir myllumerkinu #almannahagsmunir en mennirnir voru meðal annars bæði nafngreindir og myndum af þeim dreift á Twitter og Facebook.

Þetta kom fram í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.  Samkvæmt heimildum fréttastofu átti fyrra atvikið sér stað 19. september og það seinna 17. október. Kærurnar voru lagðar fram nokkrum dögum eftir seinna atvikið. 

Vilhjálmur birti í nótt myndband á Facebook-síðu sinni sem hann segir að sé tekið inn í íbúð annars mannsins. Sú íbúð var sögð útbúin til nauðgana á forsíðu Fréttablaðsins í gærmorgun. Lögreglan sendi í framhaldinu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem fram kom að sumt í umfjöllun fjölmiðla væri ekki í samræmi við rannsóknargögn. Ekki kom fram hvað þetta sumt væri.

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sagði í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 að íbúðin hefði ekki verið sérútbúin til ofbeldisathafna og Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri 365 miðla, sagði að blaðið stæði við forsíðufréttina.

Vilhjálmur sagði í Morgunútvarpinu í morgun að hann hefði ekki fengið gögn lögreglunnar í hendurnar. Hann hefði tekið við máli skjólstæðings síns síðdegis í gær.

Hann fullyrti að sinn skjólstæðingur og önnur konan hefðu átt í góðum samskiptum í 25 daga eftir að meint brot hefði átt sér stað - meðal annars nokkrum klukkustundum eftir að meint brot hefði átt að eiga sér stað. Hann sagði að hvergi í þeim samskiptum hefði verið minnst einu orði á þvingun eða refsiverða háttsemi og sagðist hafa undir höndum 25 blaðsíður af slíkum samskiptum sem sönnuð það. 

Vilhjálmur sagði að síðara sakarefnið - þar sem mennirnir tveir hafa verið kærðir - virtist óljóst. Hann rakti þá atburðarás í viðtalinu og sagði að morguninn eftir hefðu viðkomandi snætt saman morgunverð. Konan hefði yfirgefið íbúðina í skóm og bol af öðrum kærða.  „Þetta er í engu samræmi við þær svakalegu lýsingar sem komu fram í Fréttablaðinu í gærmorgun,“ sagði Vilhjálmur og upplýsti að hann hefði lagt fram kærur gegn konunum tveimur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki náðist í lögregluna á höfuðborgarsvæðinu til að fá þetta staðfest.

Vilhjálmur sagði ábyrgð Fréttablaðsins mikla í málinu. Forsíða blaðsins í gærmorgun varð kveikjan að umræðunni á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #almannahagsmunir.

Notendur Twitter og Facebook deildu þar myndum og nöfnum sem sagðar voru af mönnunum. Vilhjálmur segir blaðið bera fulla ábyrgð á „þeim skelfilegu tíðindum sem þar áttu sér stað þar sem tveir menn voru teknir af lífi af dómstóli götunnar,“ sagði Vilhjálmur og fullyrt að meðal annars hefði verið birt mynd af barni annars þeirra. „Já, það var birt mynd af manninum þar sem hann var með barninu sínu.“ Þeim hefði einnig verið hótað lífláti.

Vilhjálmur segir að lögreglan hafi mætt heim til annars mannsins til að gera þar húsleit. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu fór sú húsleit fram 22. október. Vilhjálmur fullyrti að lögreglan hefði ekki verið með húsleitarúrskurð en að annar mannanna hafi hleypt henni inn. „Og hún leggur hald á keðjur fyrr boxpúða, gamla reiðsvipu og tölvu.“

Árni Þór Sigmundsson, sem fer með rannsókn málsins hjá lögreglunni, vildi ekki tjá sig um þetta í samtali við fréttastofu í morgun. Vilhjálmur hvatti lögregluna til að gera húsleitarskýrsluna og þær myndir sem þar hefðu verið teknar til að taka af allan vafa.

Vilhjálmur sagði ap hann hefði sent Kristínu Þorsteinsdóttur, aðalritstjóra 365 miðla, bréf þar sem farið var fram á afsökunarbeiðni og leiðréttingu. Blaðið er krafið um tíu milljónir í miskabætur fyrir hvorn manninn. Hann upplýsti jafnframt að nú væri verið að safna gögnum um alla þá sem hefðu deilt myndum af mönnunum og kallað þá „nauðgara“ - þeir hefðu gerst sekir um refsiverða háttsemi.

Í Morgunútvarpinu var einnig rætt við Fanneyju Birnu Jónsdóttur, fréttastjóra Fréttablaðsins, um málið. Hægt er að hlusta á viðtalið hér.

 

ATH: Í upphaflegri frétt var sagt að seinna atvikið hefði átt sér stað 14. október en það var 17. október.