Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kæra vegna Eden-reits barst 3 dögum of seint

13.02.2018 - 10:33
Mynd með færslu
 Mynd: hveragerdi.is
Úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála vísaði á föstudaginn frá kæru eiganda garðplöntusölunnar Borgar vegna deiliskipulags á Eden-reitnum í Hveragerði þar sem kæran barst þremur dögum of seint.

Eigandinn krafðist þess að framkvæmdir á reitnum yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá nefndinni.

Hann hélt því fram að fyrirhugaðar myndu hafa áhrif á rekstur gróðurhússins og garðplöntusölunnar og valda „gríðarlegu fjártjóni.“ Framkvæmdirnar myndu nánast eyðileggja framtíðarmöguleika lóðarinnar og því væri grenndarréttur hans ekki virtur.

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkti deiliskipulagið á fundi sínum í júlí. Heildarfjöldi íbúða verður 60 til 70 í tveggja til þriggja hæða fjölbýlishúsum með 2 til 4 herbergja íbúðum frá 60 til 100 fermetrar að stærð.

Þetta er ekki eina málið sem hefur komið upp í tengslum við uppbygginguna á Eden-reitnum.  Hveragerðisbær bauðst til að greiðahúsfélaginu að Reykjamörk 2 bætur upp á 2,5 milljónir þar sem ein af nýbyggingunum gengi að hluta inn á lóð húsfélagsins og minnkaði hana um 309 fermetra.

Bærinn hét því jafnframt að sjá til þess að ekki yrði raskað við hól á suðurhorni lóðarinnar sem íbúarnir telja að sé álfahóll.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV