Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Kæra innflutning tækja til mjólkurframleiðslu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Matvælastofnun hefur kært til lögreglu meint brot á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Málið varðar innflutning á notuðum landbúnaðartækjum til mjólkurframleiðslu. Tækin voru flutt hingað til lands án leyfis Matvælastofnunar og án tollafgreiðslu. MAST frétti af málinu einu ári eftir innflutninginn.

Samkvæmt lögum er óheimilt að flytja hingað til lands notuð landbúnaðartæki sem hafa komist í snertingu við dýr eða dýraafurðir nema með leyfi MAST. Þeim sem hyggjast flytja slík tæki hingað til lands ber að sækja um leyfi til stofnunarinnar.

Treysta því að vörur séu ekki afhentar án tollafgreiðslu

Að sögn Einars Thorlacius, lögfræðings Matvælastofnunar, eru málin yfirleitt leyst þannig, þegar ekki hefur verið sótt um leyfi, að innflutningurinn er stöðvaður í tolli og tækin sótthreinsuð hjá þrifafyrirtækjum sem gert hafa samning við MAST og tollayfirvöld. „Matvælastofnun treystir auðvitað á það að vörur sem þessar séu ekki afhentar án tollafgreiðslu,“ segir Einar. Hann telur að tækin séu nú í notkun hjá fyrirtækinu sem flutti þau inn. 

Skipafélagið sem flutti tækin hingað til lands afhenti þau án þess að hafa heimild tollstjóra til þess, að sögn Harðar Davíðs Harðarsonar, yfirtollvarðar. Málið er nú í ferli hjá rannsóknardeild Tollstjóra. Sendingin var aldrei send til tollyfirvalda til tollafgreiðslu. Ekkert hafi farið úrskeiðis hjá embættinu, segir hann. „Skipafélagið er því grunað um að hafa brotið tollalög með því að afhenda vöru án heimildar Tollstjóra og MAST en sá hluti er snýr að tollalögum í rannsókn hjá okkur,“ segir hann.

Líta innflutninginn alvarlegum augum

Landbúnaðartækin voru send hingað til lands frá Danmörku. Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að stofnunin hafi ekki frétt af innflutningnum fyrr en í lok síðasta árs, einu ári eftir innflutninginn. Matvælastofnun lítur innflutning sem þennan alvarlegum augum, að því er segir í tilkynningunni.

MAST hefur áður kært innflutning á landbúnaðartækjum

Árið 2017 voru fluttar til Íslands 86 notaðar landbúnaðarvélar. Yfirleitt var tilkynnt um innflutninginn fyrir fram eins og vera ber en í öllum tilvikum fór fram úttekt og í flestum þeirra þurfti viðbótarþrif og sótthreinsun. Slík sótthreinsun er alltaf á kostnað þeirra sem flytja áhöld eða tæki hingað til lands. Matvælastofnun hefur áður kært innflutning á áhöldum, þá vegna innflutnings á búnaði fyrir hesta. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir