Kæra Alþingi vegna skipunar í fjárlaganefnd

19.12.2017 - 16:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kvenréttindafélag Íslands kærði Alþingi í dag til kærunefndar jafnréttismála vegna skipunar í fjárlaganefnd. Í síðustu viku voru ein kona og átta karlar skipuð í nefndina. Samkvæmt jafnréttislögum á hlutfall kynjanna að vera sem jafnast í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ríkis og sveitarfélaga og ekki minna en 40 prósent af hvoru kyni.

„Skipun Alþingis í fjárlaganefnd fer með grófum hætti gegn lagaákvæðinu, þar sem hlutföllin eru 89 prósent karlar og 11 prósent kona,“ segir í tilkynningu um málið á vef Kvenréttindafélags Íslands. Þar segir að félagið hafi margoft skorað á og hvatt Alþingi og stjórnvöld að gæta að kynjahlutföllum við skipan ríkisstjórnar og við skipan í nefndir og ráð. Slíkar áskoranir hafi verið sendar Alþingi fjórum sinnum á síðastliðnu ári, síðast 14. nóvember. „Að mati Kvenréttindafélagsins hefur Alþingi nú sýnt í verki að jafnréttislög eru hreinlega virt að vettugi við skipan í nefndir og því taldi félagið ljóst að leita þyrfti annarra leiða en að senda út ályktanir og áskoranir,“ segir í tilkynningunni. 

Skipun í fimm nefndir þingsins af átta er ekki í samræmi við jafnréttislög og það hallar á konur í öllum nefndum nema einni, í utanríkismálanefnd. Í allsherjar- og menntamálanefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og velferðarnefnd eru konur 33 prósent nefndarmanna og karlar 67 prósent. Atvinnuveganefnd, umhverfis- og samgöngunefnd og utanríkismálanefnd eru með 44 prósent og 56 prósent nefndarmanna af hvoru kyni. Konur skipa 36 prósent af nefndarsætum í heild en eru 38 prósent þingmanna.

Kvenréttindafélagið lagði fram kæru vegna skipunar í fjárlaganefnd þar sem kynjahlutföll í þeirri nefnd eru verst. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna á sæti í fjárlaganefnd. Auk hennar eiga sæti í nefndinni þeir Willum Þór Þórsson, Framsóknarflokki, Haraldur Benediktsson, Njáll Trausti Friðbertsson og Páll Magnússon, Sjálfstæðisflokki, Ágúst Ólafur Ágústsson, Samfylkingu, Birgir Þórarinsson, Miðflokki, Björn Leví Gunnarsson, Pírötum og Ólafur Ísleifsson, Flokki fólksins.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi