Joseph Kabila, forseti Kongó, hefur verið lýstur sigurvegari forsetakosninganna í landinu á dögunum. Kjörstjórn birti í dag úrslit kosninganna og sagði að Kabila hefði fengið 49 prósent, en helsti keppinautur hans Etienne Tshisekedi rúm 32 prósent.
Tshisekedi kvaðst hinsvegar í dag ekki una þessari niðurstöðu og lýsti sig réttkjörinn forseta landsins. Andstæðingar Kabila eru sagðir hafa kveikt í hjólbörðum á götum út í höfuðborginni Kinshasa eftir að úrslit voru kynnt og kastað grjóti að lögreglu. Þá heyrðust skothvellir í borginni undir kvöld.