Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Júlíus: Rakalaus þvættingur óvildarmanna

14.11.2018 - 11:22
Mynd með færslu
 Mynd: Kikkó - RÚV
Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, telur að sakamál héraðssaksóknara á hendur honum megi rekja til stöðu hans sem fyrrverandi stjórnmálamanns. Aðrir hefðu aldrei fengið sambærilega meðferð. Þá sé yfirmaður rannsóknarinnar í Vinstri grænum og því vanhæfur í málinu. Í greinargerð Júlíusar segir að ávirðingar ættingja hans séu rakalaus þvættingur óvildarmanna.

Héraðssaksóknari gaf í ágúst út ákæru á hendur Júlíusi Vífli fyrir að þvætta tugmilljóna ávinning af fyrndum skattsvikum. Meint peningaþvætti er í ákærunni sagt hafa numið 49 til 57 milljónum, en nákvæm upphæð er ekki vituð vegna þess að Júlíus hefur ekki viljað greina frá því nákvæmlega hvenær þeirra tekna var aflað sem hann er sagður hafa skotið undan skatti. Skattprósenta var breytileg á árabilinu sem gæti verið undir.

Neitaði að tjá sig

Raunar kemur fram í greinargerðinni, sem verjandi hans skilaði til héraðsdóms í byrjun mánaðar, að þegar Júlíus Vífill mætti til skýrslutöku vegna málsins hjá Héraðssaksóknara í september 2017 hafi hann nýtt rétt sinn til að tjá sig ekki um sakarefnið. Hann hafi í staðinn vísað til „nokkuð ítarlegrar“ bókunar, eins og það er orðað í greinargerðinni, upp á þrjár síður sem hann hafi afhent rannsakendum.

Í greinargerð Júlíusar er einnig rakið að alls ekki sé ljóst að hann hafi gerst sekur um skattsvik eins og Héraðssaksóknari leggur til grundvallar í ákæru sinni. Ekkert liggi fyrir um að fjármunirnir sem Júlíus átti á erlendum reikningum sínum, eins og fram kom í Panama-skjölunum og fjallað var um í Kastljósi vorið 2016, hafi verið tekjur, eða að þær hafi þá átt að vera skattlagðar hér á landi. Þar geti meðal annars þurft að horfa til tvísköttunarsamninga. Þetta hafi ekkert verið rannsakað en nálgun ákæruvaldsins virðist vera sú að það hvíli á Júlíusi að sanna hver uppruni fjárins var.

Upplýsti Ríkisskattstjóra um féð fyrir Kastljós

Jafnframt kemur fram í greinargerðinni að Júlíus hafi, 31. mars 2016, nokkrum dögum fyrir umfjöllun Kastljóss um Panamaskjölin, upplýst Ríkisskattstjóra bréfleiðis um innistæður sínar á erlendum bankareikningum og óskað eftir leiðréttingu til hækkunar á álagningu auðlegðarskatts árin 2011 til 2015, eftir því sem við ætti.

Eftir sýningu þáttarins ákvað Skattrannsóknastjóri hins vegar að hefja rannsókn á skattskilum Júlíusar og því tók Ríkisskattstjóri erindi hans ekki til meðferðar.

Fjölmiðlaumfjöllunin markað farveg rannsóknarinnar

Í greinargerðinni er málareksturinn allur rakinn til umfjöllunar Kastljóss um Panama-skjölin og fjölmiðlaumfjöllunar í kjölfarið, sem hafi „haft mikil áhrif á þann farveg sem málið fór í“. Rannsóknin öll hafi markast allnokkuð af „margvíslegum rangfærslum“ í fjölmiðlaumfjölluninni og að vísað hafi verið til þeirra í skýrslutökum af Júlíusi og vitnum í málinu.

Einnig er vikið að Kastljóssþætti sem sýndur var rúmum mánuði síðar þar sem fjallað var um deilur Júlíusar við systkini sín og aðra erfingja foreldra hans, sem hafa sakað hann um að sölsa undir sig ættarauð foreldra hans – fé sem varð til í rekstri bílaumboðsins Ingvars Helgasonar. Í greinargerðinni segir að í þættinum hafi verið „ráðist að mannorði og heiðri [Júlíusar] með fordæmalausum hætti“ og sagt um „rakalausan þvætting frá óvildarmönnum“ hans að ræða.

Málið einsdæmi og skýrist af því hver Júlíus er

Hörður Felix Harðarson, verjandi Júlíusar Vífils, segir í greinargerðinni að málið hljóti að vera einsdæmi – „þ.e. að máli sé vísað til sakamálameðferðar vegna ætlaðs skattalagabrots sem er löngu fyrnt og auk þess með öllu órannsakað“. Næsta víst sé að aldrei fyrr hafi verið ákært fyrir atvik af þessum toga. Á sama tíma hafi öðrum verið gefinn kostur á að ljúka málum á stjórnsýslustigi og ekki þurft að sæta sakamálarannsókn fyrir peningaþvætti, jafnvel þótt sakir fyrir frumbrotið – skattsvikin – hafi ekki verið fyrndar.

Ákvörðunin um að vísa málinu til sakamálarannsóknar og gefa út ákvörðun hafi ekki verið í nokkru samræmi við framkvæmd í öðrum málum. „Ákvarðanir í þessu máli taki mið af því hver ákærði er og hvernig um hann hefur verið fjallað í fjölmiðlum en ekki atvikum málsins eða líkum á sakfellingu,“ segir í greinargerðinni.

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Fjölnir Sæmundsson.

Lögreglumaðurinn í Vinstri grænum

Þá er í greinargerðinni nokkuð fjallað um þátt Fjölnis Sæmundssonar, sem stjórnaði lögreglurannsókninni hjá embætti Héraðssaksóknara. Júlíus hafi orðið þess áskynja eftir útgáfu ákærunnar að Fjölnir hafi setið á framboðslistum Vinstri grænna, í fjórða sæti í Suðvesturkjördæmi fyrir þingkosningarnar 2017 og öðru sæti í Hafnarfirði í sveitarstjórnarkosningunum í vor.

Fjölnir hafi setið á þingi sem varamaður á meðan á rannsókn málsins stóð og hefði ritað pólitískar greinar um skattaundanskot, aflandsfélög og skattaskjól þar sem hann hafi látið afstöðu sína til málefnisins í ljós með afgerandi hætti. Meðal annars hafi hann skrifað að hann efaðist um „hugarfar og heiðarleika þeirra íslensku stjórnmálamanna sem velja frekar að ávaxta fé sitt erlendis en á íslenskri grundu“.

„Einstaklinga óheppilegt“ og geti leitt til frávísunar

„Þegar horft er til sakarefnis þessa máls og áratugalangrar þátttöku ákærða í stjórnmálum fyrir Sjálfstæðisflokkinn verður að teljast einstaklinga óheppilegt að til verksins skuli hafa valist rannsakandi í slíkum tengslum við annan stjórnmálaflokk. Þegar horft er til skrifa rannsakandans er hins vegar ljóst að þetta val er ekki einungis óheppilegt heldur er vandséð hvernig rannsakandinn getur talist hafa verið hæfur að lögum til starfans,“ segir í greinargerðinni.

Júlíus hafi ríka ástæðu til að ætla að aðkoma Fjölnis að málinu hafi haft áhrif á rannsóknina og útgáfu ákæru og þessi annmarki einn og sér geti leitt til frávísunar málsins.

Segir brotið bæði fyrnt og bannað að refsa afturvirkt

Júlíus er ákærður fyrir að hafa haft fjármunina í sínum fórum árin 2010 til 2014 og ráðstafað þeim á milli bankareikninga á síðarnefnda árinu. Í greinargerðinni er því hins vegar haldið fram að peningaþvættisbrotið sé fyrnt, enda hafi peningurinn sem um er þrætt ratað inn á bankareikning hans árið 2005. Það sé dagsetningin sem skuli miða við.

Þá er því jafnframt haldið fram að það hafi fyrst orðið refsivert að þvætta ávinning af eigin brotum með lagabreytingu árið 2009. Fyrst rétt sé að miða við árið 2005 sé ómögulegt að refsa honum afturvirkt.

Samhengis- og merkingarlaus upptaka af sáttafundi

Hljóðupptaka sem dreift var nafnlaust til fjölmiðla í fyrravor er einnig til umfjöllunar í greinargerðinni. Upptakan, sem barst líka til Skattrannsóknastjóra, var af sáttafundi nokkurra deiluaðilanna í fjölskylduerjum Júlíusar. Þar heyrist rætt um hvernig koma megi fjármununum til systkina Júlíusar með þeim hætti að þeir verði sem minnst skattlagðir.

Í greinargerðinni segir að upptakan sé samsett úr að minnsta kosti níu hljóðbútum án þess að það sé tekið fram í endurriti Skattrannsóknastjóra. Hún sé þess vegna samhengis- og merkingarlaus en þó sé líklegt að hún hafi vegið þungt þegar Skattrannsóknarstjóri ákvað að vísa málinu til lögreglurannsóknar.

Segir gróft brot að Sigurður megi ekki vera verjandi

Upptakan hafði líka áhrif á val Júlíusar á verjanda í málinu. Lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson var á sáttafundinum og heyrist tala á upptökunni. Vegna þessa mótmælti saksóknari því að Júlíus fengi að velja Sigurð sem verjanda, enda gæti þurft að kalla hann til skýrslugjafar í málinu. Á þetta féllust. Júlíus telur að með þessu hafi verið gróflega gengið á rétt hans til að velja sér verjanda.

Áætlað er að aðalmeðferð í málinu gegn Júlíusi Vífli fari fram í Héraðsdómi Reykjavíkur 3. desember.