„Það kom á óvart hvað þetta var létt ef ég á að segja alveg satt. Ég á meira í þessari venjulegu réttstöðulyftu [með aukabúnaði sem aðstoðar við lyftuna] en ákvað að fara í þetta met en var gríðarlega ánægður með þetta, sérstaklega af því þetta var léttara en ég helt. Þetta er ágætis þyngd, 365 kíló, og þetta flaug bara upp,“ sagði Júlían eftir keppni í gær.
Þriðja árið í röð var keppt á sama stað í kraftlyftingum og Ólympískum lyftingum sem gefur áhugafólki um lyftingar færi á að berja allt okkar besta fólk augum á sama stað og sama tíma.
„Þetta mót, Reykjavíkurleikarnir, stækkar alltaf frá ári til árs. Kraftlyftingahlutinn er náttúrulega sérstaklega veglegur og þessi lyftingaveisla í Höllinni. Ég hef verið mjög ánægður og eins og ég segi þá keppi ég aðallega í þessum hefðbundnu lyftingum en keppti í dag í þessum klassísku en það er bara af því maður getur ekki sleppt svona flottu móti, þessari íþróttaveislu.“