Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Julian Assange handtekinn í Lundúnum

11.04.2019 - 09:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Julian Assange, stofnandi Wikileaks, hefur verið handtekinn í Lundúnum en hann hefur búið í sendiráði Ekvador undanfarin ár. Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, segir í samtali við fréttastofu að Assange hafi verið tilkynnt á síðustu mínútum að stjórnvöld í Ekvador hefðu ákveðið að veita honum ekki lengur diplómatíska vernd og að hann yrði að yfirgefa sendiráðið.

Kristinn, sem er staddur í Lundúnum og hafði lítinn tíma til að ræða við fréttastofu, segir að Assange hafi verið handtekinn innan veggja sendiráðsins. Hann hafi verið handtekinn vegna þess að bresk stjórnvöld telji hann hafa rofið tryggingu þegar hann sótti um pólitískt hæli í Ekvador. „Sem er yfirleitt minniháttar brot og er yfirleitt lokið með dómssátt,“ segir Kristinn.

Jennifer Robinson, einn af lögmönnum Assange, fullyrðir á Twitter-síðu sinni að hún hafi fengið staðfest að handtakan tengist ekki eingöngu brotum Assange í Bretlandi heldur einnig í tengslum við framsalskröfu frá Bandaríkjunum.  Kristinn segist í samtali við fréttastofu eiga von á því að nú taki við önnur barátta, að það komi líklega framsalskrafa frá Bandaríkjunum sem tengist ákæru sem hafi verið gefin út með leynd en þó fengist staðfest. Ákæran var birt fyrir mistök en átti að fara leynt.

Edward Snowden, sem flúði Bandaríkin eftir að hafa lekið upplýsingum um njósnir Bandaríkjastjórnar, segir handtöku Assange dimman dag fyrir frelsi fjölmiðla.

Assange sótti um hæli í Ekvadór vegna rannsóknar sænskra stjórnvalda á ásökunum um kynferðisbrot. Það mál hefur verið fellt niður.  AFP - fréttastofan greinir þó frá því að ein af konunum hafi núna hvatt saksóknara til að opna málið að nýju.

Fram kemur á vef BBC að Assange verði leiddur fyrir dómara við dómstólinn í Westminster „eins fljótt og auðið er,“ eins og það er orðað í tilkynningu frá lögreglunni í Lundúnum.

Á vef Guardian er vitnað í tíst frá Sajid David, innanríkisráðherra Bretlands, að hann geti staðfest að Assange sé nú í haldi lögreglu og muni þurfa að svara til saka í Bretlandi. „Ég vil þakka Ekvador fyrir samstarf sitt og lögreglunni fyrir fagmennsku sína.“  Breska lögreglan segir að henni hafi verið boðið að koma inn í sendiráðið.  Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, segir að Assange sé enginn hetja og hafi falið sig frá sannleikanum. Hunt þakkaði forseta Ekvador fyrir að nú væri hægt að draga Assange fyrir dóm.

Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata sem vann lengi með Assange, er vægast sagt undrandi á handtökunni í morgun. 

Birgitta spyr sig hvernig stjórnvöld geti hætt að veita pólitískt hæli. „Sama hversu pirrandi gestur þeirra er þá ættti aldrei að vera hægt að svipta hann stöðu sinni.“

Bandaríska leikkonan Pamela Anderson, sem heimsótti Assange í sendiráðinu, lýsir yfir megnri andúð á handtökunni og framferði Breta. Hún segir stjórnvöld í Ekvador hafa tekið þessa ákvörðun vegna þess að Assange hafi afhjúpað þau og bresk stjórnvöld séu lítið annað en hlaupatík bandarískra. „Þetta er smjörklípa vegna þessarar Brexit-vitleysu ykkar.“

Samskipti Assange við stjórnvöld í Ekvador höfðu versnað að undanförnu. Honum var til að mynda ekki leyft að nota netið og var bannað að fá gesti, að því er fram kemur í umfjöllun Guardian.  Þá sagði forseti Ekvadór að Assange hefði ítrekað brotið umgengnisreglur sendiráðsins.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV