Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Jós fúkyrðum yfir Priebus og Bannon

28.07.2017 - 01:31
White House communications director Anthony Scaramucci speaks to members of the media outside the White House in Washington, Tuesday, July 25, 2017. (AP Photo/Pablo Martinez Monsivais)
 Mynd: AP
Anthony Scaramucci, nýskipaður yfirmaður samskiptamála bandaríska forsetaembættisins, réðst í gær að háttsettum samstarfsmönnum sínum í Hvíta húsinu með fordæmalausum fúkyrðaflaumi. Að kvöldi miðvikudags hringdi Scaramucci í blaðamann tímaritsins The New Yorker og vildi fá að vita, hver hefði lekið í hann gestalista í kvöldverðarboð í Hvíta húsinu. Blaðamaðurinn neitaði að afhjúpa heimildarmann sinn og þá hótaði Scaramucci ítrekað að reka allt starfsfólkið á upplýsingasviði Hvíta hússins.

Síðan upphófst mikill reiðilestur samskiptastjórans, sem beindist helst að þeim Reince Priebus, starfsmannastjóra Hvíta hússins, og Steve Bannon, nánasta ráðgjafa Donalds Trumps. Og Scaramucci sparaði hvorki stóru orðin né svívirðingarnar í samtali við blaðamanninn Ryan Lizza.

„Reince er fjandans ofsóknarbrjálaður geðklofasjúklingur, vænisjúklingur,“ sagði hann og sakaði starfsmannastjórann Priebus um að leka skaðlegum upplýsingum í fjölmiðla. Þar á meðal eru upplýsingar um fjármál Scaramuccis, sem birtust í vefritinu Politico. „Þeir reyna að verjast mér en það mun ekki virka," sagði Scaramucci og bætti því við að Priebus myndi bráðum hætta störfum, tilneyddur. „Ég hef ekki gert neitt rangt [...] og þeir geta bara fokkað sér.“

Þá sagðist samskiptastjórinn nýi ekki hafa neinn áhuga á að komast sjálfur í sviðsljós fjölmiðlanna, öfugt við aðra háttsetta embættismenn. „Ég er ekki Steve Bannon,“ sagði hann, „ég er ekki að reyna að totta minn eigin böll. Ég er ekki að reyna að nota fjandans styrk forsetans til að ota mínum eigin tota. Ég er hér til að þjóna föðurlandinu.“

Og Scaramucci lét sér ekki nægja að hóta öllu starfsfólki upplýsingasviðs brottrekstri. „Það sem ég vil gera er að fokking drepa alla þá sem leka og ég vil koma verkefnaskrá forsetans á skrið svo að við getum náð árangri fyrir bandarísku þjóðina.“ 

Scaramucci, sem sparaði heldur ekki gífuryrðin og móðganirnar í garð Trumps fyrir fáum árum, er nú einn heitasti bandamaður forsetans og sér fjendur í hverju horni. Hann hefur heitið því að berjast af fyllstu hörku fyrir Trump og stjórn hans. Hversu lengi hann getur gert það sem opinber embættismaður eftir þessa subbulegu eldmessu á eftir að koma í ljós.

Scaramucci hefur ekki beðist afsökunar á reiðilestrinum en lýsti því yfir á Twitter að hann hygðist reyna að gæta orða sinna betur í framtíðinni. Sarah Sanders, talskona Hvíta hússins og þar með undirmaður Scaramuccis, sagði um þessa uppákomu, að Scaramucci hefði notað „býsna skrautlegan talsmáta - en ég held að hann geri það ekki aftur.“ 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV