Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Jörðin hristist af gleði í eyjum - myndband

31.07.2016 - 12:42
Mynd:  / 
Það var greinilega mikið fjör í Vestmannaeyjum í nótt, en gleðskapurinn mældist á jarðskjálftamæli Veðurstofunnar á staðnum. Þetta kemur fram á Facebook síðu Veðurstofu Íslands. Lætin náðu hámarki rétt fyrir miðnætti en þá var FM95blö á sviðinu. Sighvatur Jónsson, fréttaritari RÚV í Vestmannaeyjum, náði myndbandi af herlegheitunum sem sjá má í spilaranum að ofan.

Myndin sýnir óróagraf Veðurstofunnar. Óróagrafið sýnir jarðhræringar á landinu en vindar og sávarrót sést oft vel á grafinu ásamt öðrum umhverfis hávaða. Í gær mældust lætin af flugeldasýningunni og bassadrunum hljómsveita sem stigu á svið í Eyjum. 

Óhætt er að segja að FM95blö, Retro Stefson og DJ Muscleboy hafi náð upp mesta fjörinu því mælirinn fer á flug þegar áðurnefndar sveitir eru á sviði, samkvæmt dagskrá. 

Samkvæmt veðurstofunni var ljóst að þetta væru ekki jarðhræringar vegna þess að óróinn sást bara á einni stöð. Myndin sýnir til samanburðar jarðskjálftastöðvarnar á Eystri Skógum og í Miðmörk á suðurlandi. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV